Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor í menntunarfræði við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri (HA) og Andrea Hjálmsdóttir, lektor í félagsfræði við félagsvísindadeild HA, vinna um þessar mundir að afar áhugaverðri rannsókn undir yfirskriftinni „Lífið á tímum kórónuveirunnar: Breytingar á fjölskyldulífi, atvinnu og ábyrgð“.
Tilgangur rannsóknarinnar er annars vegar að fá yfirsýn yfir breytingar á daglegu lífi barnafjölskyldna sökum COVID-19 faraldursins með dagbókarfærslum foreldra og hins vegar að öðlast dýpri skilning á upplifun og reynslu foreldra um áhrif ástandsins á samræmingu fjölskyldulífs og vinnu með viðtölum.
Valgerður og Andrea spjölluðu við Guðmund Oddsson, dósent í félagsfræði við félagsvísindadeild HA, um náms- og starfsferil sinn, rannsóknaráherslur og reifuðu frumniðurstöður úr fyrrnefndri rannsókn á áhrifum COVID-19 faraldursins á barnafjölskyldur. Fyrstu umferð gagnaöflunar fyrir umrædda rannsókn er nýlokið (dagbókarfærslurnar) og fáum við að skyggnast aðeins í pakkann.