Hlaðvarp félagsfræðinnar snýr loksins aftur og er fyrsti þátturinn ekki af verri endanum. Í honum spjallar Sigrún við Rashawn Ray, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Maryland í Bandaríkjunum. Undanfarið ár hefur Rashawn líka verið með rannsóknarstöðustyrk frá Brookings stofnuninni, en markmið hennar er að vinna að rannsóknum sem leiða til nýrra hugmynda um hvernig hægt er að leysa ýmis vandamál samfélagins.
Í rannsóknum sínum hefur Rashawn sérstaklega lagt áherslu á ójöfnuð tengdan kynþætti, og hefur meðal annars skoðað Black Lives Matter hreyfinguna, hvernig hún byrjaði og áhrif hennar. Hann hefur einnig skoðað ofbeldi lögreglu gagnvart svörtum og unnið með lögreglunni í Maryland við að þróa aðferðir til að vinna á óbeinni hlutdrægni lögreglufólks. Síðan COVID-19 hófst hefur hann skoðað ójöfnuð sem tengist faraldrinum og meðal annars bent á að svartir eru mun líklegri til að deyja af völdum COVID-19 heldur en hvítir. Og á þessum tímum er auðvitað ekki hægt annað en að ræða um nýafstaðnar kosningar í Bandaríkjunum og mótmæli tengd þeim og þá sérstaklega hvernig þau undirstrika stöðu svartra og hvítra í bandarísku samfélagi og tilraunir til að viðhalda þeim valdaójöfnuði sem verið hefur til staðar í hundruð ára.