Gestur vikunnar er Ingi Rúnar Edvarsson, prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hann er félagsfræðingur að mennt en hann kláraði doktorspróf í félagfræði frá Háskólanum í Lundi árið 1992.
Rannsóknir Inga Rúnars tengjast meðal annars þekkingarstjórnun í íslenskum fyrirtækum, útvistun í íslenskum þjónustufyrirtækjum og háskóla utan stórborga og áhrif þeirra á nærliggjandi efnahagslíf og samfélag. Hann kom að því að stofna Félagsfræðingafélag Íslands og var fyrsti formaður þess en einnig stofnaði hann, ásamt Þóroddi Bjarnasyni, tímaritið Íslenska þjóðfélagið og voru þeir tveir fyrstu ritstjórar þess.
Þau Sigrún spjalla um mikilvægi þess að gera félagsfræðina sýnilegri í samfélaginu, m.a. með félagi og tímariti, um tengsl félagsfræði og viðskiptafræði en eyða mestum tíma í að spjalla um rannsóknir Inga Rúnars undanfarna áratugi.