Gestur vikunnar er Finnborg Salóme Steinþórsdóttir, nýdoktor í kynjafræði við Háskóla Íslands. Finnborg lauk B.A. gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og síðan M.A og doktorsgráðu í kynjafræði frá sömu stofnun. Í doktorsverkefninu sínu beindi Finnborg sjónum að kynjuðum fjármálum sem felst í því að skoða hvernig peningum er veitt (eða ekki veitt) á kynjaðan hátt og beindi hún sjónum að háskólaumhverfinu á Íslandi.
Rannsóknir hennar sýna að fjármunum er með kerfisbundnum hætti beint til greina sem almennt eru taldar karllægari sem og að framgangs- og umbunarkerfi háskólanna verðlauni frekar þætti sem almennt tengjast körlum.
Þær Finnborg og Sigrún ræða hið kynjaða háskólaumhverfi á Íslandi, sem er sérlega áhugavert í alþjóðlegu samhengi þar sem við teljum oft að hér á landi séum við búin að ná kynjajöfnuði. Að auki ræða þær aðrar rannsóknir Finnborgar, til dæmis um karlamenningu innan lögreglunnar sem og stöðu kynjanna á Íslandi í alþjóðlegum samanburði.