Í hlaðvarpi dagsins spjallar Sigrún við Valdimar Hafstein, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Valdimar hefur komið víða við í rannsóknum sínum og meðal annars skoðað hvernig höfundaréttur verður til, samlíf manna og örvera og sundlaugarmenningu. Hann hefur oft á tíðum beitt óhefðbundnum aðferðum við að koma rannsóknarniðurstöðum á framfæri, meðal annars í formi heimildarmyndarinnar, The Flight of the Condor, þar sem hann skoðaði ferð þjóðlags frá Suður-Ameríku yfir í lag í flutningi þeirra Simons and Garfunkels og hvernig ákveðin fyrirbæri urðu skilgreind sem óáþreifanleg menningarverðmæti.
Í spjalli sínu ræða þau Sigrún og Valdimar um þjóðfræðina, hvað hún er og hvers vegna hún skiptir máli, sem og hin ýmsu rannsóknarverkefni Valdimars, þar með talið verkefni hans um samlíf manna og örvera sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannís árið 2020 og sýningu sem hann er að skipuleggja um sundlaugarmenningu sem verður opnuð á Hönnunarsafni Íslands árið 2022.