Gestur okkar þessa vikuna er Ásdís Arnalds en hún lauk doktorsprófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands í nóvember 2020. Ritgerðin hennar ber heitið „Fjölskyldustefna og foreldrahlutverk: Áhrif íslensku fæðingarorlofslöggjafarinnar á atvinnuþátttöku foreldra og umönnun barna“, en áður en Ásdís hóf doktorspróf í félagsráðgjöf kláraði hún BA- og MA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands.
Ásdís starfar sem verkefnastjóri á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og mun á næstunni hefja störf sem nýdoktor í verkefni sem þau Guðný Björk Eydal, prófessor í félagsráðgjöf og Ingólfur V. Gíslason, prófessor í félagsfræði stýra. Það verkefni ber heitir „Taka og nýting á fæðingarorlofi meðal foreldra á Íslandi“ en markmiðið er að meta hvernig íslensk löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof nýtist foreldrum.
Þær Sigrún ræða rannsóknir Ásdísar og fara yfir fæðingarlöggjöf á Íslandi síðustu áratugi, hvaða áhrif hún hefur haft á atvinnu- og fjölskyldulíf á Íslandi og hvernig hún er í samanburði við önnur lönd.