Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri (HA), fer fyrir rannsóknarhópi sem rannsakar um þessar mundir stöðu láglaunakvenna á Íslandi. Verkefnið ber yfirskriftina „Working Class Women, Well-being and the Welfare State: New Evidence from the Icelandic Context“ sem útleggst á íslensku sem „Láglaunakonur, vellíðan og velferðarkerfið í íslensku samhengi“. Með Berglindi í rannsóknarhópnum eru þær Andrea Hjálmsdóttir, lektor við HA, Bergljót Þrastardóttir, lektor við HA og Valgerður S. Bjarnadóttir, nýdoktor við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Samstarfsaðilar verkefnisins eru annars vegar Varða – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins og hins vegar RHA – Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.
Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi rannsakar hópurinn áhrif atvinnu, fjölskyldulífs og félags- og efnahagslegrar stöðu á líkamlega og andlega velferð láglaunakvenna. Í öðru lagi greinir hópurinn reynslu láglaunakvenna af íslensku velferðarkerfi og hvert hlutverk kerfisins er í að viðhalda félagslegum ójöfnuði.
Berglind lauk doktorsprófi í félagsfræði frá City University of New York árið 2019 en doktorsrannsókn hennar fjallar einmitt um stéttaskiptingu meðal kvenna á Vesturlöndum og áhrif fjölskyldustefna á stéttaskiptingu kvenna og janfrétti kynjanna. Berglind var nýdoktor við Memphis háskóla skólaárið 2019/2020 og var ráðin til HA árið 2020.
Guðmundur Oddsson, dósent í félagsfræði við HA, ræddi við Berglindi Hólm um þessa áhugaverðu rannsókn og ferilinn.