MLS-deildin í Bandaríkjunum er í sviðsljósinu í Sparkvarpinu þessa vikuna. Forsvarsmenn deildarinnar hafa alltaf haft stór markmið en þurft að sætta sig við að vera minni fiskur í risastórri „íþróttatjörn“ í Bandaríkjunum. Ruðningur, körfubolti og hafnarbolti eru enn ríkjandi í íþróttamenningu Bandaríkjamanna.
MLS-deildin (Major League Soccer) er talsvert frábrugðin þeim deildum sem keppt er í í Evrópu. Í þessum þætti af Sparkvarpinu fóru þeir Þorgeir Logason og Þórhallur Valsson yfir helstu liðin, töluðu um nýliðavalið, Beckham-regluna auk þess að taka fyrir helstu grannaslagi deildarinnar. Heitasti rígurinn er Seattle og Portland, samkvæmt Þórhalli, enda er hann líkastur því sem fótboltaaðdáendur í Evrópu þekkja.
Að lokum ræða þeir bandaríska landsliðið og nokkurs konar stöðnun þess liðs á alþjóðasviðinu. Bandaríska liðið er Íslendingum kunnugt því fyrir það lið spilar Íslendingurinn Aron Jóhannsson.