Rígurinn á milli liðanna í Lissabon, höfuðborgar Evrópumeistara Portúgal, er mál málanna í Sparkvarpinu þessa vikuna. Í Lissabon hljómar Fado-tónlistin um allar hellur og hæðir og þar er fótboltamenningin í hámarki. Í þættinum ræða þeir Árni og Þorgeir um borgarslaginn milli Benfica og Sporting, tvö þriggja stærstu liðanna í Portúgal. Þriðja liðið er að sjálfsögðu Porto.
Það skilur ekki mikið milli Lissabon-liðanna því vellir liðanna standa skammt frá hvor öðrum í norðurhluta borgarinnar. Rígurinn, sem er meira en aldargamall, hófst með látum þegar átta leikmenn Benfica skiptu um lið og gengu til liðs við Sporting degi fyrir leik liðanna. Í dag er rígurinn aftur kominn í hæstu hæðir, sérstaklega eftir að hinn frábæri þjálfari Jorge Jesus skipti yfir til Sporting í fyrra eftir að hafa verið þjálfari Benfica í sex ár og gert mjög góða hluti.
Liðin þrjú; Benfica, Sporting og Porto hafa haft mikla yfirburði í Portúgal og eiga á milli sín samtals 80 titla í 82 ára sögu Evrópudeildarinnar. Strákarnir töluðu um þær mismunandi stefnur sem liðin hafa. Benfica er til dæmis þekkt fyrir sitt sterka njósnarakerfi og hafa í gegnum tíðina fundið ótrúlegustu gullmola í heimsfótboltanum og hagnast mikið á þeim síðar. Hinir grænklæddu Sporting hafa aftur á móti haldið uppi einu af allra besta ungliðastarfi í heiminum.
Í lok þáttarins ræða Árni og Þorgeir Bela Guttmann-bölvunina sem virðist enn lifa. Það eru rúm 50 ár síðan þáverandi þjálfari Benfica, Bela Guttman, lagði bölvun á liðið þegar honum var neitað um launahækkun. Síðan þá hefur liðinu aldrei tekist að lyfta titli í Evrópu.