Evrópumótið í knattspyrnu hefst í Hollandi á sunnudaginn með opnunarleik Hollendinga og Norðmanna. Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í mótinu og leikur sinn fyrsta leik á þriðjudaginn, 18. júlí gegn Frökkum.
Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona á RÚV, hefur fylgst vel með gengi landsliðsins og stýrir umfjöllun RÚV af mótinu. Hún ræðir við þá Árna, Þorgeir og Þórhall um mótið.
Íslenska landsliðið hefur komist á síðustu þrjú Evrópumót og sú reynsla gæti haft jákvæð áhrif á árangurinn úti. Auk þess var Pepsídeild kvenna tekin fyrir sem og almenn umfjöllun í heiminum um kvennaboltann.
Sparkvarpið forvitnaðist um hvernig það væri að koma sem kvenmaður inn í karllægan heim íþróttafrétta. Edda Sif hefur unnið í um 10 ár á Ríkisútvarpinu og að mestu sem íþróttafréttamaður.
Ásamt því að ræða um EM er spjallað um flottan árangur bandaríska kvennalandsliðsins og mögulegar ástæður þess. Sparkvarpið veltir svo fyrir sér hvort Pepsídeild kvenna gæti orðið þungavigtardeild í Evrópu á næstu árum.