Í þessari viku fór Sparkvarpið yfir málin í efstu deild í Frakklandi með hjálp Tryggva Páls Kristjánssonar, góðvinar þáttarins. Deildin er ekki í uppáhaldi hjá mörgum en gæti þó fengið meiri athygli en áður á komandi tímabili.
Margt hefur gerst í þessum sumarglugga hjá liðunum þar í landi og hafa meðal annars tveir kröftugir þjálfarar, Claudio Ranieri og Marcelo Bielsa bæst við í nú þegar gott safn af þjálfurum í Ligue 1. Auk þess má nefna lið Marseille sem hefur eytt miklum peningum á þessu ári og ætlar sér stóra hluti með í krafti nýs eignarhalds en framtíð liðsins lá í lausu lofti þangað til að bandarískur fjárfestir, Frank McCourt, keypti liðið í lok síðasta árs.
Þá hafa risarnir í PSG hafa verið orðaðir við tvær stórstjörnur í sumar – Neymar og Alexis Sanchez – og ætla bæta fyrir slakt gengi á síðasta tímabili þegar liðið lenti í öðru sæti á eftir Mónakó sem var eitt heitasta lið Evrópu. Árangur Mónakó er að mestu leyti að þakka ungum og efnilegum leikmönnum liðsins auk þjálfaranum Leonardo Jardim, að ógleymdri þeirri innkaupastefnu sem liðið hefur stuðst við.
Eftir að hafa selt sínar helstu stjörnur árið 2014 gerði Mónakó miklar breytingar. Það byrjaði að byggja upp með sterkri akademíu og spila ungum leikmönnum. Síðan þá hafa margir þrælefnilegir leikmenn komið upp úr La Turbie-akademíunni. Nú í sumar hafa helstu stórlið Evrópu haft auga á þeirra efnilegu leikmönnum og nokkrir horfið á brott til Englands. Forvitnilegt verður að sjá hvort að liðinu tekst að stríða PSG á nýjan leik þegar deildin hefst innan tveggja vikna.