Árni Þórður Randversson og Þórhallur Valsson fara yfir nokkur lið á Englandi sem hafa átt erfitt uppdráttar upp á síðkastið í Sparkvarpsþætti dagsins. Þessi lið eiga það sameiginlegt að hafa fallið niður pýramídann í ensku deildarkeppninni og hafa skrautlegir eigendur átt þátt í því.
Coventry City er lið sem spilar í fjórðu efstu deild á Englandi þrátt fyrir að hafa verið meira og minna í efstu deild á 10. áratug síðustu aldar. Stuðningsmenn lifa í óvissu varðandi klúbbinn enda eru líkur á því að þeir muni missa völlinn sinn eftir tímabilið og verða heimilislausir.
Charlton Athletic er líka í miklu basli, þeir spila í þriðju efstu deild eftir að hafa fallið síðast 2016. Stöðugt stríð milli stuðningsmanna liðsins og belgíska eiganda liðsins hefur orðið til þess að stuðningsmennirnir hafa mótmælt mikið fyrir leiki og á meðan leikjum stendur.
Að lokum fjöllum við aðeins um hrakfarir Blackburn Rovers sem spilar í sömu deild og Charlton. Kjúklingabændurnir, Steve Kean og Ryan Nelsen, eru bara partur af því sem við tölum um. Hlustið.