Football Manager, meira en bara leikur?
Í þætti vikunnar ræddi Þorgeir, einn af umsjónarmönnum Sparkvarpsins, við Tryggva Pál Kristjánsson. Umræðuefni þáttarins var hinn sívinsæli tölvuleikur Football Manager. Leikurinn er gefinn út af leikjaframleiðandanum Sports Interactive og kom fyrst út árið 1992. Leikurinn gengur út á að spilarar gerast knattspyrnustjórar og geta stýrt nánast hvaða liði sem er úti í heimi.
Football Manager hefur tekist að hafa mikil áhrif á fótboltaaðdáendur, leikmenn og lið. Leikurinn býr yfir risastóru gagnasafni af upplýsingum um leikmenn alls staðar úti í heimi sem lið hafa verið að nýta sér undanfarin ár. Eitt af einkennum leiksins eru forspár leiksins um unga leikmenn. Sparkvarpið rifjaði upp nokkra leikmenn sem voru hátt skrifaðir í leiknum en náðu ekki að sanna sig innan vallar í hinum alvöru heimi.