Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík, segir í samtali við Stóru málin að kennarar og foreldrar hafi fullyrt við sig að skóli án aðgreiningar sé kerfi sem sé ekki að virka. Hún segir að það sé kominn tími til þess að endurskoða kerfið.
„Fólk verður að hafa hugrekki til þess að viðurkenna að þeim hafi orðið á mistök,“ sagði Vigdís enn fremur í viðtalinu þar sem farið var yfir sveitarstjórnarmálin í Reykjavík og hinn nýstofnaða Miðflokk sem fer nú fram í fyrsta skiptið í sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn mælist með rúm 6% í nýjustu könnun Fréttablaðsins, og því ljóst að það er meðbyr með flokknum.
Vigdís segir að Miðflokkurinn verði nokkurskonar úthverfaflokkur, þar sem kastljósinu verður beint meira að stöðu úthverfa en miðborgarinnar.