Fyrirhuguð kaup Vodafone á ljósvakamiðlum 365 eru til umfjöllunar í Tæknivarpinu og spurningum velt upp um hvað Vodafone sækist eftir í fyrirtækinu 365. Í síðari hluta þáttarins er svo rætt við Ægi Má Þórisson, forstjóra Advania, um Haustráðstefnu Advania sem haldin verður í Hörpu föstudaginn 9. september.
Sórtíðindi bárust á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði á miðvikudag þegar tilkynnt var um einkaviðræður milli móðurfélags Vodafone og 365 miðla um kaup á ljósvaka- og fjarskiptaeignum síðarnefnda fyrirtækisins. Ef af kaupunum verður mun Vodafone auka veltu sína um hátt í tíu milljarða króna og vera mun betur í stakk búið til að keppa við sinn aðalkeppinaut, Símann sem þegar rekur víðfema sjónvarpsþjónustu, á sjónvarpsmarkaði. Fjallað var um tíðindin í fréttaskýringu á miðvikudag.
Margar spurningar vöknuðu við þessar fregnir. Tæknivarpið veltir fyrir sér hvar virði 365 liggur; hvort þau séu fyrst og fremst í verðmætum samningum um efni á borð við enska boltann og við HBO. Áskriftarsala á Stöð 2 hefur gengið illa undanfarin ár og viðskiptavinum fyrirtækisins boðin allskyns aukaþjónusta til að gera áskriftarpakkana meira heillandi. Tæknivarpið er þess vegna sammála um að gríðarleg sóknarfæri séu fyrir nýja eigendur. Þá er óljóst hvað verður um fréttastofu 365 miðla ef af kaupum Vodafone verður.
Á Haustráðstefnu Advania mun kenna ýmissa grasa eins og venja er á þessari árlegu ráðstefnu. Fjöldi fyrirlestra verða í boði fyrir áhugafólk og hagsmunaaðila í tölvu- og tæknigeiranum á Íslandi. Ægir Már kynnir helstu viðburði ráðstefnunnar í ár.
Tæknivarpið hefur göngu sína á ný í Hlaðvarpi Kjarnans eftir sumarleyfi. Þátturinn verður á dagskrá á föstudögum í vetur. Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Atli Stefán Yngvason og Egill Moran Rubner Friðriksson.