Kaup Vodafone á völdum eignum 365 fjarri því frágengin

Enn á eftir að sannreyna hvort rekstraráætlanir 365 eigi sér stoð í raunveruleikanum áður en að gengið verður frá kaupum á ljósvaka- og fjarskiptaeignum þess. Þá eiga eftirlitsstofnanir eftir að samþykkja kaupin. Framtíð fréttastofu 365 er óljós.

365 miðlar
Auglýsing

Stórtíðindi bárust á fjölmiðla- og fjarskiptamarkaði í morgun þegar tilkynnt var um einkaviðræður milli móðurfélags Vodafone og 365 miðla um kaup á ljósvaka- og fjarskiptaeignum síðarnefnda fyrirtækisins. Verði af kaupunum mun Vodafone auka veltu sína um hátt í tíu milljarða króna og vera mun betur í stakk búið til að keppa við sinn aðalkeppinaut, Símann sem þegar rekur víðfeðma sjónvarpsþjónustu, á sjónvarpsmarkaði. 

Tilkynning um viðræðurnar eru staðfesting á því að línurnar á milli fjarskipta og fjölmiðlunar, sérstaklega ljósvakafjölmiðlunar, eru svo gott sem horfnar. Eigendur pípanna sem bera gagnamagn inn í líf okkar á hverjum degi ætla sér líka að keppa sem efnisveitur til að gera sig meira aðlaðandi í augum sífellt kröfuharðari neytenda. 

Það er þó margt óljóst varðandi hin mögulega kaup og alls ekki víst að þau verði að veruleika. Vodafone á enn eftir að fara í gegnum hvort þær upplýsingar sem stjórnendur og ráðgjafar 365 miðla hafa lagt fram um gæði eignanna standist og eftirlitsstofnanir eiga eftir að samþykkja ráðahaginn. Svo á enn eftir að ákveða hvað verður um fréttastofu 365 og hvernig hún, sem vinnur þvert á alla miðla fyrirtækisins, á að passa inn í þessu áform.

Auglýsing

Skrifað undir í morgun

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segir að nú sé fram undan nokkurra mánaða vinna við að átta sig á öllum atriðum hinna mögulegu kaupa. Gangi kaupin eftir samkvæmt þeim forsendum sem fyrir liggja ætti að vera hægt að ganga frá kaupsamningi fyrir jól. Þá ættu eftirlitsaðilar hins vegar eftir að taka kaupin til umfjöllunar. Gangi viðskiptin eftir má því gera ráð fyrir að ekki verið gengið endanlega frá þeim fyrr en á fyrri hluta ársins 2017.

Stefán segir að þar sem Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, sé skráð félag á markaði hafi þurft að tilkynna um einkaviðræðurnar og forsendur þeirra strax og þær lágu fyrir til að gæta að jafnræði hluthafa. „Stjórn félagsins gaf okkur umboð til að hefja einkaviðræður um kaupin í gær og það var skrifað undir samkomulag þess efnis í morgun. Það hafa því ekki verið í gangi neinar viðræður utan óformlegra þreifinga milli ráðgjafa sem leiddu til þess að þær forsendur um einkaviðræður sem tilkynnt var um í morgun voru settar saman.“

Framtíð fréttastofu óljós

Það sem Vodafone vill kaupa er sjónvarps- og útvarpsrekstur 365 miðla ásamt fjarskiptahluta fyrirtækisins. Það þýðir að sjónvarpsstöðvar á borð við Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásina eru undir ásamt útvarpsstöðvum á borð við Bylgjuna, FM957 og X-ið. Í tilkynningu vegna viðræðnanna segir að þær eignir sem séu undanskildar séu Fréttablaðið og vefurinn Vísir.is. Þar segir enn fremur að „365 miðlar hf. munu halda áfram rekstri fréttastofu og verður samið um miðlun efnis milli aðila eftir því sem við á.“

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, ræddi við starfsmenn fyrirtækisins á fundi í morgun.Í dag eru fréttastofa 365 miðla, sem framleiðir efni í alla miðla fyrirtækis, ein eining. Þ.e. hún vinnur efni inn í dagblaðið Fréttablaðið, á vefinn Vísi.is, í sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 og á útvarpsstöðvar fyrirtækisins. Hún tilheyrir því bæði ljósvakahlutanum, sem Vodafone vill kaupa, og prent- og vefhlutanum, sem skilin verður eftir í 365 miðlum. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, sagði á starfsmannafundi í morgun að fréttastofa fyrirtækisins yrði ekki seld en að það kæmi til greina að gera þjónustusamning um að sýna kvöldfréttir Stöðvar 2 á sjónvarpsstöðvum Vodafone. Þá yrði gerður þjónustusamningur um það.

Aðspurður um hvort að fréttastofa 365 muni fylgja með í kaupunum verði af þeim, eða hvort hún verði skilin eftir í 365 miðlum, segir Stefán að það liggi ekki fyrir. Viðræður séu einfaldlega ekki komnar svo langt og því væri óábyrgt á þessum tímapunkti að tjá sig um hvort gerður yrði þjónustusamningur við fréttastofuna um kaup á efni ef hún yrði ekki keypt og hvernig hann yrði útfærður.

Veltan á að verða 23 milljarðar

Vodafone ætlar sér að greiða 3,4 milljarða króna fyrir þær eignir 365 miðla sem félagið hefur áhuga á að kaupa. Forsendur þess kaupverðs eru grundvallaðar á því að þær upplýsingar ráðgjafa 365 um rekstur og virði þeirra eigna standist. Þar ber helst að nefna að rekstrarhagnaður (EBITDA) þeirra gæti numið allt að tveimur milljörðum króna á ársgrundvelli. Það er tvöfaldur rekstrarhagnaður 365 miðla í fyrra, þegar hann nam 955 milljónum króna. Hluti þessarar upphæðar mun nást fram með samlægðaráhrifum í fjarskiptaþjónustu 365, þar sem henni verður einfaldlega rent inn í Vodafone.

Helmingur kaupverðsins á að greiðast með reiðufé en hinn helmingurinn með nýjum hlutum í Fjarskiptum, móðurfélagi Vodafone, á verði sem er 16,7 prósent hærra en dagslokagengi félagsins í gær. um yrði að ræða 12,2 prósent hlut í Fjarskiptum miðað við útistandandi hluti í félaginu í dag. Auk þess ætlar Vodafone að taka yfir vaxtaberandi skuldir upp á 4,6 milljarða króna. Það þýðir að heildarkaupverðið yrði átta milljarðar króna.

Í tilkynningu frá Vodafone í gær sagði að hið kaupin á eignum 365 miðla myndu auka veltu félagsins í 23 milljarða króna. Það er umtalsverð aukning, þar sem velta þess var 13,7 milljarðar króna í fyrra. 365 miðlar veltu á hinn boginn 11,1 milljarði króna á árinu 2015. Ef þær eignir sem 365 ætlar að selja yfir til Vodafone velta þeim rúmlega níu milljörðum króna sem vantar upp á að ná upp þau veltuviðmið Vodafone eftir kaupin sem tilkynnt var um í morgun þá þýðir það að þær eignir sem eftir verða í 365 miðlum séu ábyrgar fyrir um 1,8 milljarða króna veltu, eða um 16 prósent hennar. 

Tilkynningin um einkaviðræðurnar varð til þess að virði hlutabréfa í Vodafone hækkaði umtalsvert í Kauphöllinni í gær.

Skulda tíu milljarða

Rekstur 365 miðla hefur gengið misjafnlega undanfarin ár. Fyrirtækið tapaði til að mynda 1,4 milljörðum króna árið 2014 en hagnaðist um 22 milljónir króna í fyrra. Sú tala segir reyndar ekki alla söguna því ef skattaskuld sem fyrirtækið greiddi á árinu 2015 hefði verið færð í rekstrarreikning hefði 365 tapað 350 milljónum króna. Þess í stað var hin greidda skatta­skuld færð sem krafa, þar sem stjórn­endur 365 við­ur­kenna ekki nið­ur­stöðu skattyfirvalda og ætla með málið fyrir dóm­stóla. 

Í tilkynningu frá Vodafone vegna ætlaðra kaupa á hluta eigna 365 kemur fram að eftir í 365 miðlum muni sitja möguleg áhætta í tengslum við skattaleg málefni og leiguskuldbindingar félagsins. Þar á meðal er umrædd krafa, sem alls óvíst er hvort fáist greidd, og leiga á höfuðstöðvum 365 miðla í Skaftahlíð. Ef af kaupunum verður virðist því ljóst að ljósvaka- og fjarskiptastarfsemi 365 miðla flytjist annað.

Í fyrra voru 320 millj­ónir króna greiddar inn sem nýtt hluta­fé í 365. Árið áður var greitt inn 445 millj­ónir króna í nýtt hlutafé og því hafa hlut­hafar sam­tals sett inn 765 millj­ónir króna á tveimur árum. 

Félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur eru í dag aðaleigendur 365 miðla. Eiginmaður hennar, Jón Ásgeir Jóhannesson, kemur mikið að daglegum rekstri fyrirtækisins.Skuldir 365 miðla hafa vaxið nokkuð hratt á undanförnum árum og eru nú alls um tíu millj­arðar króna. Þær hækk­uðu um rúman millj­arð króna í fyrra. Þar munar mest um end­ur­fjár­mögnun á lang­tíma­lánum fyr­ir­tæk­is­ins í fyrra­haust, þegar það færði sig úr við­skiptum hjá Lands­bank­anum og yfir til­ ­Arion banka. Við þá breyt­ingu juk­ust lang­tíma­skuldir 365 miðla úr 3,6 millj­örðum króna í 4,8 millj­arða króna. Í árs­reikn­ingnum segir að þessi breyt­ing hafi leitt til lækk­unar á end­ur­greiðslu­byrði fyr­ir­tæk­is­ins á næst­u árum, sem þýðir að lengt hafi verið umtals­vert í lánum þess. Allar eignir 365 miðla eru veð­settar sem trygg­ing fyrir end­ur­greiðslu lána fyr­ir­tæk­is­ins hjá ­Arion banka. Vaxta­gjöld lækk­uðu við þetta úr 568 millj­ónum króna í 541 millj­ón króna.

Vodafone ætlar sér að taka yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum 365 ef af kaupum félagsins á völdum eignum verður.

Má Vodafone kaupa Tal?

Fjarskiptahluti 365 miðla er að mestu tilkomin vegna sameiningar félagsins við Tal í lok árs 2014. Í þeim viðskiptum fengu hluthafar Tals, sem meðal annars eru íslenskir lífeyrissjóðir, um 20 prósent hlut í 365.

Tal hafði þá lengi glímt við rekstrarerfiðleika og mikið tap og reynt að leita að aðilum til að sameinast til að ná fram nauðsynlegri stærðarhagkvæmni. Og oftar en ekki hafði Vodafone verið sá aðili.

Á árinu 2008 rak IP Fjarskipti fjarskiptaþjónustu sína undir nafninu Hive. Á sama tíma var Vodafone í eigu Teymis, sem átti dótturfélagið Ódýra símafélagið sem rak fjarskiptaþjónustu undir nafninu SKO. Þessi tvö félög voru sameinuð og nýja félagið fékk nafnið Tal. Móðurfélag Vodafone eignaðist 51 prósent í IP Fjarskiptum, móðurfélagi Tals, við þennan samruna. Samkeppniseftirlitið veitti samþykki fyrir samrunanum en með þeim skilyrðum að hann yrði til að auka samkeppni.

Í janúar 2009 gerði eftirlitið húsleitir í höfuðstöðvum allra hlutaðeigandi að samrunanum og um mitt það ár birti það ákvörðun sína um að fyrirtækin hefðu brotið gegn samkeppni á markaði með samstilltum aðgerðum. Teymi var gert að greiða stjórnvaldssekt upp á 70 milljónir króna og gert að selja frá sér eignarhlutinn í Tali.

Samkeppniseftirlitið sagði nei

Árið 2011 var reynt aftur. Þá stóð til að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, myndi kaupa Tal og var tilkynnt um þá fyrirætlan. Samkeppniseftirlitið ógilti hins vegar þann samruna vegna röskunar á fjarskiptamarkaði. Þar sagði að Tal væri „mikilvægur keppinautur bæði Símans og Vodafone þar sem félagið býður upp á heildarlausnir á sviði fjarskipta á smásölumarkaði og er með meiri breidd í þjónustuframboði en aðrir keppinautar Símans og Vodafone. Þessi þrjú fyrirtæki eru hin einu hér á landi sem veita heildarfjarskiptaþjónustu á smásölumarkaði sem m.a. heimili nýta sér. Minni keppinautar á fjarskiptamarkaði eru háðir Símanum og Vodafone um aðgang að fjarskiptanetum þeirra á heildsölustigi til þess að geta veitt fjarskiptaþjónustu í samkeppni við Símann og Vodafone á smásölumarkaði.“

Margt hefur vissulega breyst á fjarskiptamarkaði frá því að þessi ákvörðun var tekin, og Nova t.d. fært út starfsemi sína þannig að fyrirtækið er farið að selja ljósleiðaratengingar. Þá hefur vöruframboð og hlutdeild Hringdu vaxið ár frá ári, þótt fyrirtækið sé enn lítið í samanburði við risanna á markaðnum.

Áhugavert verður að sjá hvort Samkeppniseftirlitið hafi breytt afstöðu sinni frá árinu 2011 því í kaupum Vodafone á 365 miðlum felst sannarlega sameining í það sem einu sinni hét Tal.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Útskýring – leikrit í einum þætti
Kjarninn 14. maí 2021
Byggingar ratsjárstöðvarinnar á Heiðarfjalli hafa að mestu leyti verið jafnaðar við jörðu. Þó er enn mikið magn spilliefna á svæðinu.
Ríkið ráðist í hreinsun spilliefna við ratsjárstöð Bandaríkjahers á Heiðarfjalli
Á Heiðarfjalli er að finna í jörðu úrgangs- og spilliefni frá þeim tíma sem eftirlitsstöð Bandaríkjahers var í rekstri á fjallinu. Landeigendur hafa um áratuga skeið reynt að leita réttar síns vegna mengunarinnar.
Kjarninn 14. maí 2021
DV hefur ráðið nýjan ritstjóra til starfa.
Björn Þorfinnsson ráðinn ritstjóri DV
Blaðamaðurinn Björn Þorfinnson hefur tekið við starfi ritstjóra DV. Tobba Marinós lét nýverið af störfum sem ritstjóri miðilsins, sem er hættur að koma út á pappír.
Kjarninn 14. maí 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
„Af nógu að taka áður en höggvið er í sama knérunn um að laun séu of há“
Forseti ASÍ leggur til nokkrar lausnir áður en ráðamenn og fyrirtækjaeigendur hér á landi fara að gagnrýna slagorð verkalýðshreyfingarinnar „það er nóg til“.
Kjarninn 14. maí 2021
Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Bjarni Benediktsson eru stundum sagðir standa í stafni fyrir þær ólíku fylkingar sem rúmast innan Sjálfstæðisflokks og bítast þar um völd og áhrif.
Sjálfstæðismenn á höfuðborgarsvæðinu komnir í prófkjörsham
Tekist hefur verið á um grundvallaráherslur Sjálfstæðisflokksins á óvenjulega opinberum vettvangi að undanförnu. Fulltrúar ólíkra sjónarmiða innan flokksins keppast nú um að koma þeim að í aðdraganda prófkjöra á höfuðborgarsvæðinu.
Kjarninn 14. maí 2021
Innviðir á leiðinni út
Sýn og Nova hefur nýlega hafið sölu á fjarskiptainnviðum sínum auk þess sem Síminn hefur íhugað að gera slíkt hið sama. Aðskilnaður á innviðum og þjónustu þótti hins vegar ekki ráðlegur þegar einkavæða átti Landssímann fyrir 20 árum síðan.
Kjarninn 14. maí 2021
Auglýsingin sem birt var í Morgunblaðinu í gær var nafnlaus, en hafði yfirbragð þess að hún væri á vegum Lyfjastofnunar. Það var hún ekki.
Morgunblaðið biðst velvirðingar á birtingu auglýsingar þar sem efast er um bólusetningar
Konan sem keypti heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þar sem varað var við aukaverkunum vegna bólusetningar gegn COVID-19 segist ekki skammast sín. Lyfjastofnun segir auglýsinguna villandi hræðsluáróður.
Kjarninn 14. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Aur lumar á góðri lífslausn
Kjarninn 14. maí 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None