Það þurfti að leka fréttunum um að iPhone 7 myndi ekki vera með tengi fyrir heyrnatól svo viðbrögðin yrðu betri. Þetta er mat Tæknivarpsins sem ræðir kynningu Apple á nýrri kynslóð iPhone-símanna í vikunni. Nýju símarnir eru búnir nýrri tækni og uppfærslum frá síðustu kynslóð eins og venjulega.
Fyrir hinn almenna neytanda þá mun muna mestu um nýja línu símamyndavéla sem stærri gerð iPhone 7 mun skarta. Hún er í raun tvöföld og er mun öflugari en myndavélar í snjallsímum hafa verið hingað til. Myndavélin hefur tvær linsur; ein venjuleg 28 mm víðlinsa og svo önnur þrengri 56 mm linsa.
Í kynningunni á miðvikudag var hins vegar settur fyrirvari á þessar nýungar því jafnvel þó iPhone 7 komi í verslanir 16. september næstkomandi þá er hugbúnaðurinn fyrir nýju myndavélina ekki tilbúinn. Notendum verður boðin uppfærsla á stýrikerfið síðar.
Umsjónarmenn þáttarins í dag eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Atli Stefán Yngvason, Andri Valur Ívarsson og Sverrir Björvinsson. Í þættinum gera þeir upp veðmál sem gert var í þættinum 12. desember 2015 þegar orðrómurinn um að nýi síminn yrði ekki með tengi fyrir heyrnartól leit dagsins ljós.
Apple kynnti einnig fleiri nýjungar á borð við nýjan Super Mario Bros-leik sem Nintendo hefur hannað og búið sérstaklega til fyrir nýja stýrikerfið sem fylgir iPhone 7. Og svo var endurbætt Apple Watch-snjallúr kynnt.