Ný höfundalög munu kosta ríkið 234 milljónir króna á ári. Ríkið mun, samkvæmt frumvarpi sem Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur lagt fyrir Alþingi, greiða því sem nemur 1% af tollverði allra tölva og snjallsíma sem fluttir eru hingað til lands og 4% af gagnageymslum á borð við USB-lykla og minniskort.
Tæknivarpið ræðir þetta nýja lagafrumvarp í þætti dagsins með Helgu Ingimundardóttur, doktor í reikniverkfræði. Þessar 234 milljónir munu renna til höfundaréttasamtaka sem bætur vegna þess að mögulegt er að þessi tæki geti hýst ólöglegar útgáfur af höfundaréttarvörðu efni.
Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson og Egill Moran Rubner Friðriksson. Auk þess að ræða frumvarpið fjalla þau um stóra FIFA 16-málið, nýja snjalltækjastýrikerfið frá Apple og rannsóknir um að heilsuúr skili engum árangri.