Falskar fréttir á samfélagsmiðlum og dreifing þeirra í lokuðum hópum eru taldar hafa haft áhrif á úrslit í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hin hefðbundnu pólitísku skilaboð virðast ekki ná eyrum almennings með sama hætti og fyrir öld samfélagsmiðla og internetsins.
Tæknivarpið ræðir falskar fréttir, sannleik og meðhöndlun samfélagsmiðla og internetsins á fréttum og umræðum. Gestir þáttarins eru Hjalti Harðarson, framkvæmdastjóri Kjarnans, og Birgir Þór Harðarson, framleiðslustjóri Kjarnans. Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson og Atli Stefán Yngvason.
Fyrir flesta fjölmiðla sem leggja áherslu á umfjöllun og fréttaflutning á vefnum eru samfélagsmiðlar helsta dreifileiðin. Fyrir hvern fjölmiðil eru í reynd aðeins fáeinar dreifileiðir í boði; það er af sem áður var þegar fjölmiðlar áttu dreifileiðirnar að mestu sjálfir og gátu auðveldlega talað við einsleitan og breiðan áheyrendahóp. Eðli samfélagsmiðla og internetsins hefur sundrað þessum samleita hópi.