Fréttatilkynning 365 sem birt var á dögunum fékk marga til þess að halda að 365 væri að fylgjast með netumferð internetáskrifenda sinna. Umsjónarmenn Tæknivarpsins ráku í það minnsta upp stór augu þegar þeir lásu tilkynninguna og ákváðu að kanna málið.
Í ljós kom að þarna væri um að ræða baráttukall frá FRÍSK – hinu nýja SMÁÍS – þar sem talað er um að sérhæft fyrirtæki hafi verið fengið til þess að fylgjast grannt með IP-tölum þeirra sem hlaða íslensku sjónvarpsefni inn á ólöglegar síður og dreifiveitur.
Fréttir af tilkynningunni hljómuðu hins vegar svolítið eins og að 365 væri að skoða notkun áskrifenda að internetinu hjá fyrirtækinu. Ein fyrirsögnin var á þá leið að beinlínis mátti skilja að 365 fylgdist með ólöglegu niðurhali notenda sinna.
Umsjónarmenn Tæknivarpsins þessa vikuna eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Atli Stefán Yngvason, Andri Valur Ívarsson og Sverrir Björgvinsson. Þeir ræða ólöglegt niðurhal og dreifingu á höfundavörðu efni í þættinum í dag auk þess að spjalla um nýjungar hjá löglegu streymisveitunni Netflix.