Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri markaðssetningar- og vörusviðs Símans, er gestur Tæknivarpsins þessa vikuna. Tæknivarpið hefur undanfarið fjallað nokkuð um stöðuna á sjónvarpsmarkaði á Íslandi enda eru að verða nokkrar breytingar þar með nýrri og öflugri tækni og innleiðingu hennar á íslensk heimili. Sjónvarp Símans hefur ekki verið undanskilið í þessum umræðum. Magnús hafði samband við Tæknivarpið og vildi leiðrétta nokkra hluti.
Þeir Gunnlaugur Reynir Sverrisson og Atli Stefán Yngvason spjalla við Magnús um sjónvarpsþjónustu Símans og almennt um sjónvarpsmarkaðinn hér heima og erlendis. Á undanförnum árum hafa ný tæki notið sí aukinna vinsælda; tæki á borð við Apple Tv, Fire TV og snjallsjónvörp má finna á fjölda heimila. Þá ræða þeir hreyfingar samkeppnisaðila Símans á markaðinum en Vodafone hyggist kaupa sjónvarpsþjónustuna út úr 365 Miðlum.
Erlendis hefur samkeppnin á sjónvarpsmarkaði breyst mikið á síðustu árum. Netflix og Amazon keppa nú á sama markaði og risastór framleiðslufyrirtæki og milliliðar í flutningi sjónvarpsefnis frá framleiðendum til neytenda eru að verða óþarfir.
Allt þetta og meira til í Tæknivarpinu.