Smekkfullt Tæknivarp spjallar um helstu tækifréttir líðandi stundar. Í þætti vikunnar er spjallað um breytta skoðun Netflix á nethlutleysi, rauðan Apple iPhone og einföldun í snjalltækjavörum fyrirtækisins, fyrstu myndirnar af Galaxy S8-símanum, Snapchat-gleraugun og Android O frá Google.
Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Andri Valur Ívarsson, Atli Stefán Yngvason, Egill Moran, Bjarni Ben og Sverrir Björgvinsson.
Framkvæmdastjóri Netflix, Reed Hastings, lét hafa eftir sér á dögunum að hann hefði ekki neinar áhyggjur af hugsanlegri lagasetningu um nethlutleysi í Bandaríkjunum. Netflix starfar á markaði með hugverk sem háð eru ströngum skilyrðum. Hastings telur hugsanlegar breytingar á regluverki ekki hafa of mikil áhrif á starfsemi Netflix, enda séu neytendur orðnir meðvitaðir um rétt sinn á vefnum. Tæknivarpið ræðir málið.
Andri Valur er tiltölulega nýkominn heim úr flakki um Kúbu. Á Kúbu er víða erfitt að komast á veraldarvefinn. Andri Valur fræðir hlustendur og þáttastjórnendur um kúbanskt internet.