Nýr Samsung Galaxy S8 var kynntur á dögunum og Tæknivarpið er búið að kynna sér uppfærsluna á þessu flaggskipi kóreska raftækjarisans. Síminn skartar nýstárlegri snjalltækjahönnun, þar sem enni símans og haka eru orðin örþunn, þannig að nær öll framhlið símans er skjárinn.
Tæknivarpið gagnrýnir nýja tækið fyrir ýmsa hluti, miðað við hvernig hann var kynntur. Síminn hefur til dæmis ekki fengið neina uppfærslu á myndavélina og rafhlaðan er jafn stór. Þá fer „Edge“ skjárinn í taugarnar á Tæknivarpsmönnum.
Auk þess að ræða Samsung Galaxy S8 spjalla þeir Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Sverrir Björgvinsson, Atli Stefán Yngvason og Andri Valur Ívarsson um verðhækkanir símafyrirtækja, LG G6-símann og reikigjöld erlendis.
Reikigjöld farsímafyrirtækja munu leggjast af í sumar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það þýðir, í einfaldri mynd, að ekki verður lengur rukkað fyrir tengingu símans við farsímanetið á meðan síminn er ekki notkun.