Facebook hefur að undanförnu gert breytingar á og bætt nýjungum við spjallforrit sitt Messenger sem hefur orðið til þess að tæknirýnar velta fyrir sér hvert markmið Facebook-samstæðunnar sé með þetta smáforrit.
Messenger er ekki aðeins snjalltækjaforrit heldur er spjallglugginn á Facebook-vefnum orðinn að sér fyrirbæri sem Facebook virðist vera að reyna að gefa sjálfstætt líf. Spjallforritið var fyrst skilið frá Facebook-appinu árið 2014. Það varð til þess að margir létu í sér heyra á netinu og gáfu nýja Messenger-appinu ömurlega einkunn í AppStore. Á sama tíma varð Messenger vinsælasta appið í AppStore.
Og nú, um þremur árum eftir að Messenger var gefið eigið líf, er appið nærri toppnum í AppStore. Þegar þetta er skrifað er Messenger í 18. sæti, langt fyrir ofan Facebook-appið sjálft.
Markmið Facebook er að gera Messenger forritið ómissandi fyrir notendur sína. Samskipti á milli fyrirtækja og viðskiptavina, spilun leikja, auglýsingar og margt fleira. Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Andri Valur Ívarsson og Sverrir Björgvinsson ræða þetta ásamt fleiru í hundraðasta þætti Tæknivarpsins.