Það þykir ekki lengur flott að segja "lol" þegar þú þarft stafrænt að hlæja. Mun meira móðins er að segja "haha" eða nota tilfinningatákn, svokölluð emoji, til að skella uppúr í netheimum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem samskiptamiðlarisinn Facebook birti í síðustu viku. Í skýrslunni greindu sérfræðingar Facebook hvaða leiðir notendur miðilsins nota til að tákna hlátur. Rannsóknin, sem náði yfir bandaríska notendur síðunnar, var framkvæmd í síðustu viku maí síðastliðins. Í henni skoðuðu sérfræðingarnir notkun á styttingum eða táknum fyrir stafrænan hlátur í stöðuuppfærslum og ummælum við þær. Rannsóknin náði ekki yfir samskipti fólks í einkaskilaboðum eða -samræðum.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að þeir sem nota "lol" (stytting á laugh out loud) er eldri en þeir notendur sem nota "haha" eða "hehe" þegar þeir hlæja strafrænt. Flestir nota "haha" til að koma því á framfæri að þeim hafi þótt eitthvað fyndið eða hlægilegt. Um helmingur allra stafrænna hlátraskalla voru táknuð með þeim hætti. Emoji-tákn voru notuð í þriðjungi tilvika en einungis 1,9 prósent notenda eru ennþá að "lol-a". "Lol-ið" virðist því vera að fara sömu leið og áður vinsælir samskiptafrasar á netinu á borð við "rotfl" (rolling on the floor laughing) og "Imao" (laughing my ass off), á öskuhauga úr sér genginna tískufyrirbrigða.
Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir einnig að það er munur á því hvernig kynin hlæja á Facebook. Konur er til að mynda mun líklegri til að nota tilfinningatákn til að lýsa hlátri sínum en karlar nota mun frekar "haha" eða "hehe". Hið nú hallærislega "lol" er aðeins vinsælla hjá konum en körlum.
Wall Street Journal fjallaði um rannsóknina á síðu sinni í gær. Þar var rætt við málvísindamanninn Tyler Schnoebelen, sem sagði að það hafi komið sér á óvart hversu fáir séu enn að "lolla". Hann gagnrýndi rannsóknina fyrir að ná ekki yfir eina tegund skrifaðs hláturs sem njóti sívaxandi vinsælda á samfélagsmiðlum, líka hjá enskumælandi notendum. Það er "jaja" eða "jeje", sem spænskumælandi fólk notar í stað "haha" eða "hehe".