Styttur og minnismerki eru til umföllunar í Þætti um kúl hluti þessa vikuna enda um afburða töff fyrirbæri að ræða. Til að fræða hlustendur um styttur fengum við Jón Karl Helgason, prófessor við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, til að hitta okkur í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hann skrifaði bókina Ódáinsakur sem kom út í fyrra og fjallar um þjóðardýrlinga Íslands.
Það vakti athygli okkar hversu fá minnismerki eru um konur í Reykjavík.Minnismerki um þjóðþekktar konur eru teljandi á fingrum annarar handar.
„Það er mjög merkilegt. Það er minnismerki um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem er uppí Þingholtum og er frekar nýlegt. Það er í rauninni bara torg. Þar er engin mynd af henni, engin fallískur eirstöpull eins og karlarnir hafa gert. Þetta er kannski bara svolítið táknrænt um ólíkar hugmyndir kynjanna um hvernig eigi að minnast sögunnar,“ segir Jón Karl um minnismerki um konur.
Þá könnuðum við hversu margar brjóstmyndir hafa verið gerðar af borgarstjórum Reykjavíkur, enda eru það sérstök minnismerki um sögu borgarinnar. Síðasta brjóstmyndin sem reist var í Ráðhúsinu er af Davíð Oddssyni en hann lét af embætti árið 1991. Síða hafa tíu einstaklingar gengt embættinu, ef Dagur B. Eggertsson er aðeins talinn einu sinni.
Hlustaðu á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan eða í hlaðvarpsstraumi Kjarnans. Endilega sendið línu á Twitter-fangið @ofurbiggi og notið merkið #ÞUKL til að mæla með töff hlutum.