Með samningnum SFR við ríkið í vikunni var verkfalli
stéttarfélagsins aflýst. Verkfall þetta náði til ýmissa félaga opinberra
starfsmanna. Innan þess mengis voru umsjónamenn fasteigna Háskóla Íslands og
urðu verkfallsaðgerðir þeirra fyrr í mánuðinum valdar að lokun ýmissa bygginga
og kennslustofa með tilheyrandi truflun á kennslu þeirra 13.000 nemenda sem
skráðir eru í Háskólann. Þetta verkfall var engin nýjung fyrir stúdenta, enda
það þriðja sem stóð til með að trufla kennslu þeirra á innan við tveim árum.
Þar af voru hin tvo, verkfall félags háskólakennara annars vegar og prófessora
hins vegar, áætluð á próftíma til að valda sem mestum usla á námsframvindu
stúdenta en í báðum tilfellum náðust samningar áður en verkföllin hófust.
Í flestum tilvikum hljómaði fréttaflutningur fjölmiðla á þá leið að stúdentar
væru „uggandi“ eða „áhyggjufullir“ yfir stöðu mála. Réttara væri að segja að
þeir væru algjörlega gáttaðir. Bæði í nýliðnu verkfalli umsjónamanna og þeirra
sem boðað var til á síðasta ári hafa bæði yfirvöld sem og stjórn og starfsmenn
skólans algjörlega brugðist stúdentum. Í kjarabaráttu þeirra stétta sem starfa
innan Háskóla Íslands eru stúdentar, sem langstærsti aðilinn að starfsemi
skólans, notaðir sem vopn stríðandi aðila og eru verkföll miðuð við að valda
sem mestri truflun á námi þeirra svo þrýstingur aukist við samningaborðið. Í
tilfelli allra þessa boðuðu verkfalla var illa staðið að upplýsingagjöf til
stúdenta og úrræði fyrir þá lítil sem engin. Þeir eða hagsmunaaðilar þeirra þurftu
af fyrra bragði að biðja um upplýsingar um skipulag, tímasetningu og framvindu
verkfalla og bárust þau gögn, ef þau bárust yfirhöfuð, bæði seint og illa. Í
nýafstöðnu verkfalli SFR var um að ræða lokun á kennslurýmum innan skólans en
ekki stöðvun neinnar kennslu, og hvatti Stúdentaráð Háskólans kennara til þess
að nýta allar tiltækar leiðir til að halda uppi eðlilegri námsframvindu og
sinna skyldu sinni við nemendur. Varð það til þess að kennsla var í auknum mæli
færð á netið, eða í aðrar kennslustofur eða önnur rými sem komu verkfallinu
ekki við. Uppskeran af þeirri viðleitni var sár hneykslun, formaður
Stúdentaráðs var sakaður um að skilja ekki verkfallsréttinn og ýmsum kennurum
úthýst sem verkfallsbrjótum sem væri skítsama um minni bræður sína. Áhrifamáttur
verkfallsins var þó ekki rýrður meira en svo að samningar náðust eftir rúmlega
tveggja vikna viðræður og stúdentar sátu uppi með fjóra daga af niðurfelldum
fyrirlestrum, dæmatímum, rannsóknum og lokaprófum.
Stúdentar eru samkvæmt öllum mælikvörðum lágtekjustétt. Á meðan öll gjöld sem
fylgja því að stunda einhvers konar nám á háskólastigi hækka og
húsnæðismarkaðurinn er handónýtur þá hefur framfærsla stúdenta nær algjörlega
staðið í stað. Háskóli Íslands er stærri en nokkru sinni áður og hefur úr minnu
að moða fyrir hvern nemenda með hverju árinu sem líður, sem leiðir m.a. til
aukinnar gjaldtöku á stúdenta sjálfa. Á meðan er grunnframfærsla þeirra í boði
LÍN langt undir neysluviðmiðum Hagstofunnar, námsframvindukrafan þar á bæ var
hækkuð eftirminnilega um árið til að brjóta enn frekar á jafnrétti til náms og
forneskjulegt frítekjumark lánasjóðsins, lægra en hjá t.d. öryrkjum, leiðir marga lánstakandi stúdenta í árlegan
vítahring of hárra sumarlauna og skertra lána. Mennt er máttur sagði einhver en
ég fullyrði að íslenskir stúdentar upplifi sig ekkert sérstaklega máttuga. Það
er áfellisdómur yfir íslenskt samfélag að nám á háskólastigi sé í sífellu látið
sæta niðurskurði og vosbúð. Á meðan ráðamenn tala um nám sem ómetanlega
fjárfestingu samfélagsins og stúdentar á öðrum Norðurlöndum fá greitt með námi
sínu þurfa íslenskir stúdentar að lepja dauðann úr skel. Það er áfellisdómur
yfir stjórnendum og kennurum Háskóla Íslands að kennsluhættir séu á því
steinaldarstigi að þegar nokkrir húsverðir boða til verkfalls og segjast ekki
ætla að opna lásinn á kennslustofum skólans þá þurfi nám yfir 10.000
einstaklinga að leggjast niður. Það er áfellisdómur yfir þeim stéttum sem aðild
eiga að kennslu og aðstöðu stúdenta að þær nýti sér síendurtekið líf og starf
stúdenta sem efnahagslegt bitbein og leitist við að valda sem mestum skaða þar
á til þess að beita sem mestum þrýstingi í eigin kjarabaráttu.
Nám er vinna og stúdentar líta á það sem starf sitt. Þeir eru hagsmunahópur með
sín kjör, sín vandamál og sínar áskoranir og hjá mörgum þeirra er
fjárhagurinn háður eðlilegri
námsframvindu. En ólíkt öðrum viðlíkum stéttum og hagsmunahópum hafa stúdentar
engan verkfallsrétt, enga kjarasamninga, enga bókaða tíma upp í Karphúsi. Þeir
eru efnahagslega undirsettir, réttindalausir og nær alltaf látnir sæta afgangs.
Þegar kjarabaráttan er í fyrirrúmi og verkfallshrina plagar þjóðfélagið er
talað um mikilvægi þess að virða verkfallsréttinn og að stétt standi með stétt
í sinni baráttu. Ég styð þá hugsun eins og hver heilvita maður. En á meðan
algjört sinnuleysi allra málsaðila gagnvart kjörum stúdenta virðist ekki ætla
að linna þá hlýtur sú fallega hugsjón að byrja að hljóma örlítið innantóm. Enda
hafa stúdentar engan rétt, engan málsvara og njóta engrar samstöðu.
Höfundur er heimspekinemi og
stúdentaráðsliði Röskvu – Samtaka félagshyggjufólks við Háskóla Íslands
Í síðasta sæti
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar