Af hverju tala stjórnmálamenn við kjósendur eins og þeir séu fífl?

Auglýsing

Á miðvikudag var loks staðfest það sem legið hefur í loftinu lengi, að slitabú föllnu bankanna geti klárað slit sín án þess að það ógni greiðslujöfnuði og fjármálastöðugleika, að mati Seðlabanka Íslands. Samhliða munu þessi bú greiða íslenska ríkinu stöðugleikaframlag, greiða upp lán sem ríkið veitti endurreistum viðskiptabönkum og veita bankakerfinu langtímafjármögnun á kjörum sem því bjóðast ekki annars staðar. Kröfuhafar bankanna hafa auk þess samþykkt að veita ríkinu skaðleysi. Og auðvitað það sem mestu máli skiptir: það verður hægt að losa um fjármagnshöft á almenning og fyrirtæki.

Þessi risastóra efnahagsaðgerð er endahnúturinn í uppgjöri hrunsins. Allar stóru ákvarðanirnar sem við höfum tekið síðan þá hafa gengið upp. Fyrst voru sett neyðarlög, sem gerðu það að verkum að erlendir kröfuhafar töpuðu sex til sjö þúsund milljörðum króna sem þeir höfðu lánað Íslendingum. Næst var samið um endurreisn bankanna með þeim hætti að hægt var að endurskipuleggja íslenskt atvinnulíf og fjárhag heimila með tilheyrandi skuldaafskriftum. Síðan voru slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans færð inn fyrir fjármagnshöft til þess að hægt yrði að stilla þeim upp við vegg þannig að engar eignir yrði greiddar út ef það myndi ógna íslenskum stöðugleika. Og loks var samið við kröfuhafanna um nákvæmlega þetta.

Að þessu ferli komu þrjár mjög ólíkar ríkisstjórnir. Þær eiga það allar sameiginlegt að hafa gert gríðarlega margt galið í stjórnartíð sinni. En þessar stóru efnahagslegu ákvarðanir hafa allar verið réttar. Fyrir það ber að hrósa þeim. Og Ísland er að koma út úr þessu fordæmalausa ástandi með lægstu hreinu skuldastöðu sem þjóðarbúið hefur verið með síðan á síldarárunum á sjöunda áratug síðustu aldar.

Auglýsing

Kröfuhafar löngu búnir að greina vandann

Raunar á sú niðurstaða sem nú liggur fyrir ekkert að koma á óvart. Kröfuhafarnir voru fyrir löngu búnir að greina að þeir þyrftu að gefa frá sér eignir til þess að fá að ljúka slitum búanna. Þeir kynntu slíkar greiningar á fundum 2011 og 2012 og væntar endurheimtir þeirra hafa árum saman verið nánast nákvæmlega þær sömu og niðurstaðan segir að þær verði. Með öðrum orðum voru kröfuhafarnir fyrir löngu búnir að greina vandann, hvaða lausn væri á honum og hvað hún myndi kosta þá. Þeir hafa bara verið að bíða eftir að Seðlabankinn reiknaði sig niður á sömu niðurstöðu.

Það var auðvitað nauðsynlegt, enda úrlausnin eitt stærsta efnahagsmál Íslandssögunnar. Og Seðlabankinn hafði alltaf unnið að málinu út frá þeirri aðferðarfræði að um þjóðhagslegt úrlausnarefni væri að ræða, ekki tekjuöflunarleið. 

Út frá þessum forsendum hefur nú verið samið og ljóst að allir hlutaðeigandi geta gengið nokkuð sáttir frá borði. Þeir kröfuhafar sem keyptu kröfur á föllnu íslensku bankanna skömmu eftir hrun eru að fá góða ávöxtun á fjárfestingu sína. Ísland er að sama skapi að leysa úr efnahagshruni á fordæmalausan hátt sem skilar landinu út úr storminum í mun sterkari stöðu en nokkur átti von á haustið 2008.

Leiksýningar með risastórum tölum

En það er, af einhverjum ástæðum, ekki hægt að láta þetta risastóra mál snúast um lausnina sjálfa. Það þarf sníða það að pólitískum þörfum þannig að einhverjir geti eignað sér lausnina eða þannig að hún komi sér illa fyrir einhvern pólitískan andstæðing. Pakka henni inn í pólitíska skrumskælingu.

Það er gert með því að setja á fót leiksýningar sem hafa þann eina tilgang að slá ryki í augun á almenningi. Og þær ganga allar út frá því að almenningur sé fífl.

Í júní var blásið í herlúðra og áætlun um losun hafta kynnt í Hörpu. Þegar kynningin fór fram lá fyrir að öll slitabú föllnu bankanna höfðu átt í margra mánaða leynilegum samræðum við stjörnvöld um lausn og öll höfðu lagt fram tilboð sem stjórnvöld voru búin að samþykkja, með fyrirvara.

Kynningin í Hörpu, sem var 88 blaðsíður, snérist samt sem áður ekkert um þetta. Hún snérist um 39 prósent stöðugleikaskatt og töluna 850 milljarða króna. Heilu glærurnar voru lagðar undir þessar stærðir. Á glæru 57 var nefnt, í framhjáhlaupi og með smáu letri, að stærstu kröfuhafar allra skilabúanna hefðu reyndar skilað inn viljayfirlýsingu um að þeir vildu ganga að settum stöðugleikaskilyrðum. Aðalatriðið var að algjöru aukaatriði í framsetingu stjórnvalda.

Síðan að þessi kynning átti sér stað hafa slitabúin verið í viðræðum við Seðlabanka Íslands um hvort og þá hvaða breytingar þau þurfi að gera til að mæta skilyrðum stjórnvalda. Á meðan að sú vinna hefur staðið yfir hafa ýmsir gagnrýnt stjórnvöld fyrir að gefa eftir stórkostlegar fjárhæðir með því að leggja ekki á stöðugleikaskatt. Það er auðveld gagnrýni þegar búið var að eyða jafn miklu púðri í það, nokkrum mánuðum áður, að selja almenningi að losun hafta snúist um öflum tekna upp á hundruð milljarða króna en ekki lausn á undirliggjandi vanda þjóðarbúsins.

Og síðan hófst önnur leiksýning

Snemma í október lá síðan greining Seðlabankans fyrir og til stóð að kynna hana. Á síðustu stundu var hætt við það. Líklegt verður að teljast að þar hafi pólitík spilað stóra rullu. Þ.e. að ákveðnir ráðamenn hafi viljað aðlaga kynningu á lausninni að áður birtum tölum til að þjóna eigin pólitísku hagsmunum.

Á miðvikudaginn var niðurstaðan loks kynnt og greinargerð Seðlabankans birt. Og síðan hófst önnur leiksýning. 

Í henni voru allar aðgerðir sem nokkru sinni hefur verið gripið, og verður gripið til, gagnvart slitabúum bankanna lagðar saman til að mynda töluna 856 milljarðar króna. Þ.e. tölu sem var hærri en sú sem var kynnt sem afrakstur stöðugleikaskatts í júní. Sú tala varð aðalatriði kynningarinnar.

Í þessari samantekt voru týnd saman stöðugleikaframlög (379 milljarðar króna) lenging á skuld Landsbankans við LBI ( sem var framkvæmd í lok árs í fyrra), skattgreiðslur slitabúanna, kostnaður þeirra og ýmislegt annað, endurheimtir Eignasafn Seðlabanka Íslands á kröfum sem það á í búin (sem liggja reyndar ekkert fyrir), endurgreiðslur á lánum sem íslenska ríkið veitti viðskiptabönkum árið 2009 og fjármögnun sem slitabúin hafa samþykkt að veita íslenskum viðskiptabönkum.  

Hin einföldu stjórnmál tilfinningaraka

Þessar leiksýningar eru enn eitt skrefið í átt að frasapólitík þar sem höfðað er til tilfinninga kjósenda í stað þess að leggja fyrir þá staðreyndir og treysta því að þeir hafi skynsemi og getu til að skilja þær. Pólitík þar sem öllu er pakkað inn í einfalda tölu eða hugtak sem er samt nægjanlega teygjanlegt eða loðið til að hægt sé að aðlaga það að sem flestum lausnum. Þetta hefur opinberast vel í haftamálinu.

Og þessari aðferðarfræði er beitt víðar, bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu. Það er til dæmis ítrekað verið að tala um „afnám verðtryggingar“ án þess að nokkur stjórnmálamaður hafi fyrir því að útskýra hvað eigi að felast í slíku, enda ekki hægt að afnema hana án þess að skipta um gjaldmiðil. Hver stjórnmálaflokkurinn á fætur öðrum talar um að breyta ríkisbönkum í „samfélagsbanka“ án þess að því fylgi nein greinargóð skýring á því hvernig slíkur banki ætti að reka sig eða hvert hlutverk hans ætti að vera.

Við erum föst í stjórnmálum tilfinningaraka þar sem risastórum málum er pakkað inn í einfaldar lausnir og þær seldar okkur án ábyrgðar. Oft fylgja með loforð um peningagjafir á borð við niðurfellingu skulda með peningum úr ríkissjóði, niðurgreiðslu vaxta með peningum úr ríkissjóði eða gjöf á hlutabréfum í bönkum sem við eigum nú þegar.

Svona stjórnmál eru móðgun við almenning. Og við eigum kröfu á að kjörnir fulltrúar okkar bjóði okkur ekki upp á þau.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Drangaskörð eru stórkostleg náttúrusmíð.
Skipuleggja frístundabyggð við ysta haf
Kríuvarp, sóleyjar og jökull. Eitt sérstæðasta náttúrufyrirbrigði Vestfjarða og þótt víðar væri leitað. Þúsund ára menningarsaga. Á landnámsjörðinni Dröngum er fyrirhugað að reisa frístundabyggð. Drangar eru sömuleiðis í friðlýsingarferli að ósk eigenda.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari
None