Í vor snerti ég á málefnum atvinnuveitenda, atvinnuleitenda og hugmyndinni um fjólubláa íkorna. Ekkert lát hefur orðið á leitinni að fjólubláu íkornunum en ég hef þó rekist á nokkra á þeim tíma sem liðinn er. Þessum íkornum var tekið fagnandi af þá tilvonandi vinnuveitendum, hvílíkur léttir sem það er að fá allt sem þú biður um og meira til.
Fjólubláir íkornar eru vandaðir einstaklingar. Fjólubláir íkornar eru góðir starfsmenn. Fjólubláir íkornar eru engu að síður fólk og fólk þarf hvatningu, viðeigandi verkefni og þeir strjúka ef ekki er staðið við skuldbindingar gagnvart þeim; það vilja allir hafa þá í vinnu, þeir hafa engu að tapa.
Nýlega hef ég rætt við tvo slíka íkorna. Ungar konur með margt fram að færa, margt að læra og þorsta til þess að gera vel og stækka sem einstaklingar. Ráðnar sem fjólubláu íkornarnir sem þær eru, í hlutverk sem var skilgreint með lykilverkefni en auk þess svigrúm til þess að sinna eigin hugðarefnum, bæta þar sem breytinga er þörf og taka þátt í mótun þess umhverfis sem þær starfa í.
Allt þetta væri ekki frásögufærandi ef staðið væri við síðari hluta umræddra samkomulaga. Það sem mætti þeim var annar veruleiki. Ferköntuð hlutverk, óaðgengilegir yfirmenn og lítill sýnilegur vilji til þess að standa við fögru orðin. Fjólublái íkorninn var aflitaður, settur í kassa og beðinn um að haga sér.
Sem betur fer höfðu umræddir íkornar kjark, sjálfstraust og tækifæri til þess að segja störfum sínum lausum en punkturinn er sá að ráðningarsamningur er tvíhliða samkomulag. Starfsfólk eru ekki minni en stjórnendurnir sem þeir heyra undir. Allir vita að starfsmaðurinn verður að standa undir væntingum stjórnandans en eitthvað virðist vanta upp á að stjórnendur taki sínar skuldbindingar gagnvart starfsmanninum eins alvarlega.
Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur en mig grunar að kynslóð foreldra minna (f. 1955-1970); vel menntuð, dugleg og vinnur vegna þess að vinna er dyggð, átti sig ekki á því að við tókum gildin sem þau innprentuðu okkur; hugsaðu sjálfstætt, taktu ákvarðanir á eigin forsendum og veldu þér starfsvettvang á sviði sem þú nýtur þín á, bókstaflega. Hugsanlega hafa þau ekki verið viðbúin viðbrögðum eigin boðskapar. Við sem tilheyrum „Y-kynslóðinni” (f. 1980-2000, stundum kölluð „millenials”) kokgleyptum einfaldlega gildin. Við vinnum ekki vinnunnar vegna, við vinnum í hlutum sem hvetja okkur, örva okkur og stækka okkur sem einstaklinga.
Kjarkur fárra getur hrundið af stað byltingu og litríkir íkornar eru ekki slæm framtíðarsýn fyrir atvinnulíf. Tilgangurinn verður að fá svigrúm til þess að helga meðalið.
Greinarhöfundur starfar sem ráðningastjóri hjá TeqHire.com