Margir stjórnmálamenn á Íslandi láta sig dreyma um eitthvað gríðarlega stórt sem þeir geta slegið um sig. En þegar öllu er á botninn hvolft reynist draumurinn vera ógnarsmár. Þannig láta margir sig dreyma um gull og græna skóga með því að selja rafmagn til útlanda eftir að lagður hefur verið rándýr rafmagnsstrengur alla leið til Skotlands.
Á meðfylgjandi töflu má sjá glöggt yfirlit rafmagnsframleiðslu á Íslandi 2013. Þar kemur fram að allt uppsett afl allra virkjana í landinu var það árið tæp 2.800 MW og orkuvinnslan hafi verið rúmar 18.000 Gwst. Landsvirkjun framleiðir um tvo þriðju hluta alls rafmagns á Íslandi eða um 12.500 Gwst.
Nú er það svo að um þriðjungur milljónar íbúa Íslands nýtur
um 20% af allri framleiddri raforku landsins gegnum almenningsveitur en 80% fer
í stóriðjuna sem kunnugt er. Segjum sem svo að ef þessi raforkuframleiðsla yrði
tvöfölduð með tilheyrandi fórnum á viðkvæmri náttúru landsins og allur viðbótarorkuforðinn
yrði afhentur til Skotlands. Þá væri með sömu þörf almenningsveitna á Íslandi
og sama hlutfalli reikna með að við gætum útvegað raforku nær 2 milljónum manns
í Skotlandi! Og tæplega þó því reikna mætti með töluverðu orkutapi á þeim 1000
km langa rafmagnskapli sem orkan fer um frá Íslandi. |
Íbúar Glasgow eru núna nálægt 1.2 milljónir með öllum úthverfum og Edinborgar um hálf milljón manns þannig að hagkvæmast væri að beina hugsanlegri orkusölu þangað.
Dreifikerfi raforku hérlendis er, vegna mikils strjálbýlis á Íslandi, nokkuð óhagkvæmt. Því má reikna með að dreifing orku um dreifikerfi í Skotlandi sé eitthvað hagkvæmara og ætti því að nýtast fleirum. Ekki er mér kunnugt um rafmagnsverð í Skotlandi til almennings en líklegt er að með auknu framboði á rafmagni muni það fremur lækka en hækka þó væntingar um stórgróða séu miklar hjá einföldum stjórnmálamönnum á Íslandi.
Mættu þessar ábendingar vekja sem flesta til umhugsunar. Stórir draumar geta endað í martröð eina óveðursnótt og þarf ekki vont veður til. Mættum við fá að hafa náttúru landsins í friði fyrir ágengum stjórnmálamönnum!