Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtali við vefinn Politico.eu að Ísland hefði getað orðið gjaldþrota, ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið eða verið í því þegar þrengdi á fjármálamörkuðum fyrir sjö árum, og í eftirleiknum árin á eftir.
Þetta er líkast til rétt hjá Sigmundi Davíð, enda var vandi Íslands, haustið 2008 og mánuðina og árin á eftir, svo yfirþyrmandi að ekkert annað en einstök neyðarlagasetning og stórtækar aðgerðir á grundvelli hennar gat bjargað efnahagslegu sjálfstæði landsins. Líklega hefði aldrei verið hægt að grípa til hennar ef Ísland hefði ekki verið með eigin mynt og sjálfstæðan seðlabanka.
Enginn gat gert sér í hugarlund að vandi bankakerfisins íslenska væri jafn mikill og raunin var, enda kom ekkert slíkt fram í ársreikningum bankanna. Hvergi var þar að finna upplýsingar um að þeir fjármögnuðu eigin hlutafé sitt langt umfram lögleg mörk, eins og nú er algjörlega óumdeilt.
Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður stjórnar Seðlabanka Íslands og nú ritstjóri Morgunblaðsins, lýsti innanmeinum bankakerfisins, sem sáust ekki fyrr en allt var fallið eins og spilaborg - en hefðu átt að sjást fyrr - með eftirfarandi hætti í andmælabréfi sínu til rannsóknarnefndar Alþingis. „Bankarnir höfðu þá bersýnilega verið notaðir um langa hríð með grófasta hætti sem eins konar þrautavaralánastofnanir fyrir yfirskuldsett og margveðsett fyrirtæki helstu eigenda bankanna og nánustu viðskiptafélaga þeirra. Rekstrar- og eignagrundvöllur þeirra var því hruninn löngu fyrir þann tíma, sem í almennri umræðu og í þessum skýringum hafa verið kallaðir hrundagarnir. Þessari stöðu verður helst líkt við að læknar „opni“ sjúkling með krabbameinseinkenni og verði þegar ljóst að hann var fyrir löngu dauðanum helgaður, og engin læknisúrræði geri framar gagn.“
Alveg sama hversu oft það er tautað, að ekkert hafi verið sérstakt við íslenska bankahrunið, í alþjóðlegu samhengi, þá breytir það ekki veruleikanum sem þurft hefur að glíma við. Staða mála á Íslandi var algjörlega sérstök, með 80 prósent af skuldbindingum bankakerfisins, sem var tíu sinnum stærra en árleg landsframleiðsla Íslands, í öðrum myntum en seðlabankinn gat útvegað eða prentað.
Það var að mörgu leyti heppni að Íslandi hafi getað gripið til sjálfstæðra aðgerða til þess að ná efnahagslegum vopnum á nýjan leik, og sagan á vafalítið eftir að dæma endurreisnarstarfið vel. Það breytir samt ekki því, að spurningar um hvernig eigi að tengjast umheiminum í framtíðinni, þegar kemur að peningastefnu og alþjóðpólitísku samstarfi, eru aðkallandi, og stjórnmálamenn geta ekkert fullyrt um það núna, hvort vilji muni standa til þess í framtíðinni, að breyta um stefnu.