Í lok sumars sprakk út á Íslandi, einsog í Evrópu allri, mikil umræða um málefni flóttafólks og í fyrsta sinn síðan í lok seinni heimsstyrjaldar hyllti undir að stjórnkerfi Evrópu, sameiginlegt og einstök, myndi hefja sig upp úr pólitíkinni sem alla tíð hefur stýrt því hvernig álfan tekst á við málefni flóttamanna, með litlum árangri. Í sumar og haust virtist Evrópa ætla að snúa sér að verkefninu með mannúð og mannréttindahugsjónina að leiðarljósi, deila ábyrgð og raunverulega gera eitthvað sem gæti skipt sköpum. Snúa fókusnum við og vinna að málefnum flóttamanna á forsendum mannúðar, ekki alfarið á pólítskum forsendum.
Eftir því sem líður á haustið verður þó - því miður - æ ljósara að af því verður ekki og enn sem fyrr reynir hver og einn að ýta frá sér ábyrgð – ota verkefninu að þeim sem ekki á annarra kosta völ en að takast á við það, þó bjargirnar séu litlar til að búa flóttamönnum mannsæmandi aðstæður. Áætlað er að 95% sýrlenskra flóttamanna dvelji í löndum sem eiga landamæri að Sýrlandi. Ástandið þar versnar dag frá degi og þess vegna leggja æ fleiri í hættulegt ferðalag, eftir krókstigum smyglhringja, í von um líf í Evrópu. Í Evrópu dvelja flestir flóttamenn í Þýskalandi og Svíþjóð en önnur lönd reyna því miður að verulegu leyti að firra sig ábyrgð og nýta alþjóðasamninga, m.a. Dyflinarreglugerðina, til þess að komast hjá því að axla sinn skerf af ábyrgðinni
Á meðan Evrópa tekst á um hvort fólk megi koma og hvert það eigi þá að fara deyr þetta fólk úr vosbúð og örvæntingu í svo stórum stíl að það er næstum hætt að snerta okkur, og já, því miður hafa margir sem áður upplifðu vanmátt og reiði yfir ástandinu misst áhugann á hvernig þetta fer allt saman. Það breytir engu hvort eð er! Við búum við þann lúxus að geta misst áhuganna á flóttamannaverkefninu. Öskrað okkur hás þangað til við getum ekki meir – og snúa okkur þá að einhverju öðru. Það geta þær sextíu milljónir manna sem eru á flótta eða vergangi hins vegar ekki – fyrir þeim snýst þetta um líf og dauða. Og eftir því sem liður á veturinn minnka líkur þeirra sem eru veikbyggðastir til að lifa af.
Kaldastríðið og Stríðið gegn hryðjuverkum
Þegar flóttamannaverkefnið komst fyrst rækilega á dagskrá í Evrópu í lok seinni heimsstyrjaldar snerist það fyrst í stað um að aðstoða flóttamenn sem voru á vergangi í áflunni við að snúa heim. Og flestir komust heim til sín, einsog alla flóttamenn dreymir um. En fljótlega kom í ljós að sumir gátu ekki snúið heim. Þetta átti einkum við um einstaklinga frá fyrrum Sovétríkjunum, áætlað er að um hálf milljón manna hafi verið í þessari stöðu þegar kom fram yfir 1950. Ástæðan var sú að þeir höfðu talað gegn stjórnvöldum í heimaríki í stríðinu og heima biði þeirra að likindum fangelsun eða eitthvað þaðan af verra. Öryggi þeirra heima var ekki tryggt. Hér má því segja að hafi verið komnir yrstu hælisleitendurnir – einstaklingar sem gátu ekki snúið heim vegna hættu á ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki. Til að vernda þessa einstaklinga fóru Sameinuðu þjóðirnar, með sigurvegarana í broddi fylkingar, að búa til regluverk og byggja upp pólitík til verndar þeim og hægt og bítandi varð flóttamannaverkefnið að mikilvægu trompi í Kaldastríðinu sem var í hraðri uppsiglingu. Það þjónaði hagsmunum þeirra sem stóðu uppi sem sigurvegarar eftir seinni heimsstyrjöld og málstað þeirra.
Framan af gekk þetta býsna vel, hælisleitendur og flóttamenn voru samkvæmt skilgreiningu vinir Vesturlanda, oft listamenn og hugsuðir frá fyrrum Sovétríkjunum sem voru aufúsugestir og velkomin viðbót við mannlífið í Evrópu og í Bandaríkjunum. En smátt og smátt færðust átaklínur í heiminum til, Ísralesríki var stofnað 1948, Kórestríðið hófst 1951 svo eitthvað sé eitthvað sé nefnt, og fókusinn færðist til.
Kaldastríðinu lauk endanlega með falli Berlínarmúrsins árið 1989 og ekki leið nema rúmur áratugur þar til við vorum komin í nýtt hugmyndafræðilegt stríð: stríð gegn hryðjuverkum. Á sama tíma fjölgaði hælisleitendumí Evrópu, ekki síst frá Mið Austurlöndum og Asíu. Pólitíkin sem orðið hafði til í kringum flóttamanna verkefnið átti æ verr við, það þjónaði ekki lengur pólitískum hagsmunum Evrópu að tala máli flóttamanna. Enda koma þeir nú í auknum mæli úr röðum „´óvinarins“ og fjölgaði frá því sem áður hafði verið.
Óttinn leiðir til átaka
Um leið og álagið jókst og hælisleitendur komu lengra að fóru efasemdir að vaxa um að þeir einstaklingar sem til Evrópu leituðu í von um alþjóðlega vernd ættu réttmætt tilkall til stöðu flóttamanns í skilningi flóttamannasamningsins. Viðhorf til hælisleitenda og flóttamanna breyttust mjög í kjölfarið. Hælisleitendur, sem áður voru gjarnan taldir listamenn og álitnir fulltrúar tjáningafrelsis og annarra mannréttinda, voru nú taldir spunameistarar og lygarar sem voru komnir í þeim erindum að nýta sér kerfi Evrópu til að búa sér betra líf á fölskum forsendum. Og ógna tilveru okkar um leið. Þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Rauði krossinn og fleiri málsvarar flóttamanna og hælisleitenda hafi talað máli þeirra og beitt sér fyrir mannúðlegri stefnumótun og meðferð kom allt fyrir ekki. Vesturlönd brugðust almennt við þessu breytta landslagi í flóttamannamálum með því að efla landamæragæslu og semja sífellt strangara regluverk um komu flóttamanna og innflytjenda utan Evrópu. Og óttinn magnaðist. Samhliða mögnuðust auðvitað átök innan samfélaga í Evrópu um málefni útlendinga með þeim afleiðingum að málefni flóttamanna og innflytjenda þokuðust æ ofar á dagskrá stjórnmála í álfunni og átök um málefnið almennt færðust í aukana. Afleiðingarnar þekkjum við.
Árið 1999, tíu árum eftir lok Kaldastríðsins, var farið að leggja línurnar fyrir sameiginlega stefnu Evrópu í málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Um leið hófst uppbygging þess sem kallað hefur verið víggirðing álfunnar. Þá varð miklum mun erfiðara fyrir fólk á flótta undan átökum eða ofsóknum að komast löglega til Evrópu og fleiri leituðu á náðir smyglhringja og komu ólöglega. Um leið voru hælisleitendur stimplaðir sem lögbrjótar og glæpahyski, já og stundum hreinlega hryðjuverkamenn, sem brutust óvelkomnir og ólöglega til Evrópu. Eftir árásir Al Kaída á skotmörk í Bandaríkjunum urðu þessar raddir enn háværari og enn erfiðara fyrir flóttamenn og hælisleitendur að komast til Evrópu og njóta þar alþjóðlegrar verndar. En fólk hættir ekki að reyna.
Allt árið 2015 höfum við fylgst með því í fréttum hvernig hverjum ofhlöðnum bátnum á fætur öðrum hvolfir og flóttafólk, börn (allt of mörg börn) og fullorðnri drukkna í voninni um betra líf. Framan af óx umræðan eftir því sem fleiri drukknuðu í hafi en nú virðist hún vera að hjaðna og fjara út á ný, falla í sama farveg og hún hefur verið síðastliðin rúm sextíu ár; flóttamannapólitíkin er að ná yfirhöndinni en hinni siðferðilegu kröfu um að bjarga og virða mannslíf og axla ábyrgð er aftur ýtt út úr umræðurammanum. Og óttinn stýrir umræðunni enn sem fyrr.
Öfugsnúin umræða
Í takt við þá þróun sem rakin er hér að framan hefur umræðan um málefni flóttamanna því breyst. Á meðan flóttamenn voru „vinir“ okkar snerist verkefnið um að vernda og tryggja öryggi fyrir fólk á flótta en á síðustu fimmtán árum eða svo hefur áherslan snúsit alveg við og nú er iðulega rætt um hvernig megi vernda Evrópu og vesturlönd almennt gegn hælisleitendum og flóttamönnum..
Þó ólöglegt sé að koma til Evrópu heldur örvæntingarfullt fólk áfram að finna smugur í veikri von um að geta átt þolanlegt líf og byggt sér manneskjulega tilveru. Flóttafólk dreymir fyrst og fremst um öryggi fyrir börnin sín, áætlað er að um helmingur Sýrlenskra flóttamanna svo dæmi sé tekið, sé undir 18 ára aldri. Sá sem hefur engu að tapa leggur allt í sölurnar og þess vegna blómstra ólöglegir fólksflutningar um hættulega krókstigu smyglhringja og glæpaklíka. Þetta hefur enn veikt stöðu flóttafólks og sumir komast aldrei úr ánauð smyglhringjanna sem krefjast himinhárra greiðslna fyrir að koma fólki yfir Miðjarðarhafið eða eftir öðrum leiðum til Evrópu, Ástralíu, Kanada og Bandaríkjanna.
Samfara þessari þróun hefur orðspor flóttafólks því beðið hnekki og viðhorf okkar mótast af því. Hin siðferðilega krafa um mannhelgi og mannvirðingu sem algild mannréttindi hvíla á og upphaflega var látið í veðri vaka að væru undirstaða flóttamannasamningsins, hefur gleymst í umræðunni sem undan farin ár hefur í æ ríkari mæli snúist um glæpi og illan ásetning hælisleitenda, yfirgang flóttamanna og þörfina til þess að vernda íbúa og lönd Evrópu gegn þeim.
Gömlu viðmiðin gefa kolranga niðurstöðu
Svona var staðan þegar verkefnið sem við stöndum frammi fyrir nú sprakk framan í okkur. Og því miður eru fáar vísbendingar um að það breytist nema við gerum eitthvað róttækt í málinu. Þetta er margslungið verkefni og það þarf samhent átak, óbilandi mannúðarhugsjón, staðfestu, traust og úthald til að vinna á því. Og það krefst samvinnu okkar allra.
Í lok september kom út eftir mig og félaga minn, Ibrahem Farja, sem kom til Íslands sem hælisleitandi frá Líbíu sumarið 2002, bókin Undir fíkjutré – saga af trú, von og kærleika. Þar er líf og saga Ibrahems sett í samhengi við atburði í heimssögunni, meðal annars flóttamannapólitíkina sem hér hefur verið lýst og stríðið gegn hryðjuverkum, til að varpa ljósi á hvernig fólk sem neyðist til að flýja allt sem því er kært er einsog strengjabrúður í valdatafli stjórnmálanna og átaka sem þeir hafa ekkert með að gera. Hvernig flóttafólk er einfaldlega að leita að tækifæri til lífs – en ekki möguleika til að gera „okkur“ eitthvað til miska. Og hvernig það neyðist til að fórna öllu til að leita þessa tækifæris – sem er óvíst að finnist.
Eina leiðin til að vinna á vanda flóttamanna er að hlusta á raddir þeirra og persónulegar sögur sem færir áhersluna af pólitík – sem leggur stórar, almennar og merkingarlausar línur – og öðlast þannig raunverulegan skilning á þeim harmleik sem líf hvers einasta flóttamanns er. Gömlu viðmiðin gefa okkur nefnilega kolranga niðurstöðu um eðli flóttamannaverkefnisins og mögulega lausn á því. Það skiptir máli að segja – og lesa sögu einstaklinga einsog Ibrahems Faraj. Þess vegna skrifuðum við Ibrahem þessa sögu – og biðjum ykkur að kynna ykkur hana og öðlast þannig innsýn og skilning sem svo margt getur oltið á.