Síðastliðinn laugardag var haldinn stofnfundur Pírata á Vestfjörðum. Herbert Snorrason er formaður félagsins, Ásmundur Gunnar Ásmundsson gjaldkeri og Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir ritari, að því er fram kemur á hinum ágæta vef bb.is.
Á þessum fyrsta fundi var samþykkt tillaga um að auka dreifistýringu en í því felst meðal annars, að stofnaðar skuli héraðsstjórnir sem hafi sjálfstætt fjárveitingarvald og taki yfir ýmis verkefni sem sveitarfélög annist nú. Þá verði heimilt að afturkalla sameiningar sveitarfélaga. Ef ekki verði hafin vinna í samræmi við þetta, fyrir árslok 2017, eða um hálfu ári eftir kosningar, þá „skuli Vestfirðir segja sig úr lögum við lýðveldið Ísland“ eins og orðrétt segir í frétt bb.is um það sem fram fór á fundinum.
Óhætt er að segja að Píratar, sem eru með um 35 prósent fylgi á landsvísu í skoðanakönnunum þessa dagana, hafi með þessu stimplað sig rækilega inn á hið pólitíska svið á Vestfjörðum, því þetta verða að teljast frekar róttæk stefnumál. Svo á eftir að koma í ljós hvernig kjósendur munu taka þessum hugmyndum.