Ungt fólk flýr veislu sem er haldin fyrir aðra

Auglýsing

Íslend­ing­ar, íbúar þess­arar hrjúfu og köldu eyju í miðju Atl­ants­hafi, hafa löngum flúið til ann­arra landa í leit að betra lífi þeg­ar illa árar. Á ofan­verðri 19. öld fóru um 15 þús­und Íslend­ingar til Kana­da, ­Banda­ríkj­anna og Bras­ilíu til að flýja fjár­hags­legan og veð­ur­fars­legan ömur­leika á Íslandi.

Nær okkur í tíma fluttu 1.728 Íslend­ingar af landi brott árið 1970, í kjöl­far þess að síldin á Íslands­miðum hvarf vegna ofveiði. Það voru 1.380 umfram þá Íslend­inga sem fluttu aftur heim til lands­ins það árið.

Árið 1995, í kjöl­far kreppu og mik­illa erf­ið­leika í at­vinnu­líf­inu á fyrstu árum tíunda ára­tugs síð­ustu ald­ar, fluttu 1.637 Íslend­ing­ar burt umfram þá sem fluttu aftur heim. Og á árunum 2009 til 2011, eft­ir ­for­dæma­laust banka­hrun sem orsak­aði tug pró­senta geng­is­hrun, yfir 18 pró­sent verð­bólg­u,  stór­aukið atvinnu­leysi, ­eigna­bruna, nið­ur­skurð og ótrú­lega reiði, fluttu sam­tals 5.480 fleiri íslenskir ­rík­is­borg­arar til ann­arra landa en komu til baka.

Auglýsing

Allir þessir miklu brott­flutn­ingar áttu sér stað í kjöl­far kreppu. Þ.e. mik­ils sam­dráttar í efna­hags­líf­inu sem ýtti Íslend­ingum í að freista gæf­unnar ann­ars stað­ar.

Sjá­iði ekki veisl­una?

Í Morg­un­blað­inu í morgun var greint frá því að ­mikil aukn­ing væri komin í land­flótta Íslend­inga aft­ur. Á fyrstu níu mán­uð­u­m árs­ins 2015 hefðu 1.130 fleiri farið en kom­ið. Frá því að Hag­stofa Íslands fór að halda utan um slíkar íbúa­tölur árið 1961 hafa aldrei fleiri farið umfram þá sem komu í kjöl­far hag­vaxt­ar­árs.

Og hér hefur sann­ar­lega verið hag­vöxt­ur. Hann hefur raun­ar verið í fimm ár í röð og er í met­hæð­um. Á fyrri hluta þessa árs mæld­ist hann 5,2 pró­sent og hafði ekki mælst hærri frá höf­uð­ári íslenska banka­góð­ær­is­ins 2007. At­vinnu­leysi mælist 3,8 pró­sent og verð­bólga hefur verið langt undir 2,5 ­pró­sent verð­bólgu­mark­miði Seðla­bank­ans í nálægt tvö ár. Hér er ­kaup­mátt­ar­aukn­ing, nýsamið um tug­pró­senta launa­hækk­anir yfir lín­una, ótrú­leg ­fjölgun túrista og mak­ríl­veiðar hafa styrkt efna­hags­stoðir lands­ins og fjöld­i ­bygg­inga­krana er farin að nálg­ast þann fjölda sem var á bólu­ár­unum fyrir hrun.

Til við­bótar hefur end­ur­reisn íslensks efna­hags­lífs tek­ist með­ af­brigðum vel. Neyð­ar­lög og fjár­magns­höft hafa séð til þess. Eftir að upp­gjör slita­búa föllnu bank­anna klár­ast verður skulda­staða Íslands betri en hún hef­ur verið frá því á sjö­unda ára­tug síð­ustu aldar og stjórn­völd með fullar hend­ur fjár til að eyða í atkvæða­kaup, stand­ist þau ekki freistni­vand­ann.

Af hverju er þetta fólk þá að fara? Sér það ekki veisl­una? Skynjar það ekki ekki veru­leik­ann?

Hvar á ungt mennt­að ­fólk að vinna?

Rann­sóknir sýna að það sé einkum ungt og menntað fólk sem hleypir heim­drag­anum og leitar að betra lífi erlend­is. Við erum með öðrum orð­u­m að missa fram­tíð­ina úr landi. Ástæður þessa eru marg­þætt­ar.

Í fyrsta lagi er skortur á við­eig­andi störfum fyrir ung­t há­skóla­menntað fólk á Íslandi. Flest störf sem orðið hafa til á und­an­förn­um árum hafa orðið í þjón­ustu­geirum, bygg­inga­iðn­aði og ferða­mennsku. Þau krefjast ­mörg hver ekki sér­fræði­þekk­ingar eða sér­mennt­un­ar. Auk þess er Ísland örmark­að­ur­ þar sem önnur lög­mál ráða ríkjum við ráðn­ingar en í fjöl­menn­ari lönd­um. Sam­an­talið þá eru mjög sterkar vís­bend­ingar uppi um að margir finni sér ekki atvinnu sem hent­i ­námi þeirra og bak­grunni. Til dæmis er rúmur fjórð­ungur þeirra sem nú eru á at­vinnu­leys­is­skrá með háskóla­próf.

Það umhverfi sem atvinnu­líf­inu er sniðið á Íslandi er held­ur ekki sniðið að þekk­ing­ar- og hug­vits­fyr­ir­tækjum í alþjóða­starf­semi, held­ur frum­vinnslu­fyr­ir­tækjum sem hafa tekjur og lán í erlendum myntum en borga laun og skatta í íslenskum krón­um.

Hvað á ungt fólk að eiga?

Í öðru lagi er ungt fólk í erf­ið­leikum með eigna­mynd­un. Það stendur frammi fyrir stórum hindr­unum við að eign­ast þak yfir höf­uðið vegna hækk­andi fast­eigna­verðs og minnk­andi mögu­leika á því að fá lán til þessa. Vext­ir eru miklu hærri en í við­mið­un­ar­löndum og mun lengri tíma tekur að mynda raun­veru­lega eign en þar. Í raun á ungt fólk bara í erf­ið­leikum með að flytja heiman því að þús­undir íbúða eru fullar af ferða­mönnum sem kom­ast ekki fyrir á hót­elum og keyra upp leigu­verð. Ef það getur leigt þá getur það ekki lagt neitt ­fyrir vegna þess að leigan er svo dýr. Og svo koll af kolli.

Þess vegna býr fjórði hver Íslend­ingur á þrí­tugs­aldri enn í for­eldra­hús­um.

Þorri þeirrar eigna­mynd­unar sem er að eiga sér stað á upp­gangs­árum síð­ustu ára, frá því að hag­vöxt­ur­inn tók við sér, hefur átt sér­ ­stað hjá fólki sem átti eignir fyr­ir. Frá árinu 2011 og út árið í fyrra jókst eigið fé þess 1 pró­sents Íslend­inga sem átti þegar mest um 64 millj­arða króna. Það átti 507 millj­arða króna um síð­ustu ára­mót. Þessi hópur á 21 pró­sent af öllum eignum lands­manna.

Þessar tölur eru reyndar van­metnar þar sem virði verð­bréfa, t.d. hluta­bréfa, er fært inn á nafn­virði. Mark­aðsvirði þeirra er marg­falt hærra. Bara í ár hefur virði hluta­bréfa í Kaup­höll Íslands hækkað um meira en ­þriðj­ung.

Auður rík­asta pró­sents­ins er því stór­lega van­met­inn í opin­berum ­töl­um. Eigna­skortur ungs fólks, sem á ekki von á arfi frá auð­ugum ætt­ingja eða vel­gjörð­ar­manni, er það ekki.

Hvað á ungt fólk að kjósa?

Í þriðja lagi eru stjórn­mál á Íslandi bein­línis á köflum fjand­sam­leg ungu fólki. Sitj­andi rík­is­stjórn ákvað til að mynda að færa 80 millj­arða króna úr rík­is­sjóði til þeirra sem voru með verð­tryggð lán á árunum 2008 og 2009. Lang­minnstur hluti hennar fór til fólks undir 35 ára aldri, sem var ekki búið að skuld­setja sig á þessum tíma. Sam­hliða þess­ari aðgerð ákvað ríkið að gefa þeim sem nota sér­eign­ar­sparn­að­inn sinn til að greiða niður hús­næð­is­skuld­ir skatta­af­slátt. Sá afsláttur er veittur af skatt­tekjum fram­tíð­ar­kyn­slóða, en sér­eign­ar­sparn­aður skatt­lagður þegar hann er greiddur út.

Til að gæta jafn­ræðis var þeim sem áttu ekki hús­næði, að ­mestu ungt fólk, boðið að nota skatt­frjálsan sér­eign­ar­sparnað sem útborg­un ­vegna hús­næð­is­kaupa. Alls hafa 482 aðilar nýtt sér það úrræði. Með­al­upp­hæð á mann er nýtt hefur verið með þessum hætti er um 200 þús­und krón­ur. Það dug­ar ­skammt inn á inn­borgun á íbúð.

Þá sér ungt fólk margt hvert enga fram­tíð í krónu­hag­kerf­in­u þar sem gengið er fellt reglu­lega til að rétta við við­skipta­jöfn­uð­inn fyr­ir­ ­út­flutn­ings­grein­arn­ar, með til­fallandi verð­bólgu­hækk­unum og kaup­mátt­arrýrnun sem velt er yfir á launa­fólkið í land­inu.

Þessi sýn er orðin nokkuð þverpóli­tískt hjá ungu fólki.  Það sást best á ályktun ungra Sjálf­stæð­is­manna á nýaf­stöðnum lands­fundi um að fram­tíð­ar­lausn í gjald­miðla­málum felist í öðrum gjald­miðli en krón­unni.

Hag­tölur mæla ekki ham­ingju

Það er ekki hægt að mæla sátt, vellíðan og heil­brigð­i ­sam­fé­lags með hag­töl­unum einum sam­an. Þótt það sé hag­vöxtur þá finnur stór hluti þjóð­ar­innar ekki fyrir bættum hag eða upp­lifir betri fram­tíð­ar­horf­ur. Ung­t ­fólk er stór hluti þess stóra hluta.

Það vill öðru­vísi sam­fé­lag og öðru­vísi umgjörð en boðið er ­upp á. Það sést ágæt­lega á því að sam­an­lagt fylgi þeirra flokka sem stjórn­a land­inu mælist um 20 pró­sent hjá fólki undir þrí­tugu. Rúm­lega 55 pró­sent fólks á þeim aldri ætlar að kjósa Pírata, sem eru með þá grunn­stefnu að leyfa fólki ­sjálfu að ráða með beinum hætti hvernig sam­fé­lagi það býr í. Í því fell­st á­kveðin höfnun á því sam­fé­lagi sem þeir flokkar sem stýrt hafa Íslandi standa ­fyr­ir.

Og ef ungt fólk sér ekki fyrir sér aukin tæki­færi á Íslandi þá kýs það ein­fald­lega með fót­unum og fer.

Kanntu vel við Kjarnann?

Frjáls framlög lesenda eru mikilvægur þáttur í rekstri Kjarnans. Þau gera okkur kleift að halda áfram að taka þátt í umræðunni á vitrænan hátt og greina kjarnann frá hisminu fyrir lesendur. 

Kjarninn er fjölmiðill sem leggur sig fram við að upplýsa og skýra út það sem á sér stað í samfélaginu með áherslu á gæði og dýpt. 

Okkar tryggð er aðeins við lesendur. Við erum skuldbundin ykkur og værum þakklát ef þið vilduð vera með í að gera Kjarnann enn sterkari. 

Ef þú kannt vel við það efni sem þú lest á Kjarnanum viljum við hvetja þig til að styrkja okkur. Þinn styrkur er okkar styrkur.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ísland mun taka á móti 85 kvótaflóttamönnum á næsta ári
Ríkisstjórnin hefur samþykkt að taka móti 85 kvótaflóttamönnum á næsta ári en það er fjölmennasta móttaka flóttafólks frá því að íslensk stjórnvöld hófu að taka á móti flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Samtal við samfélagið
Samtal við samfélagið
Samtal við samfélagið – Regluveldi án réttinda
Kjarninn 12. nóvember 2019
Katrín Oddsdóttir, formaður stjórnarskrárfélagsins.
Stjórnarskrárfélagið segir umfjöllun Morgunblaðsins fjarstæðukennda
Stjórn­ar­skrár­fé­lagið seg­ir að um­fjöll­un Morgunblaðsins um meint af­skipti fé­lags­manna af rök­ræðukönn­un um stjórnarskrána, sem fór fram um helgina, sé fjar­stæðukennd.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og Helgi Hrafn Gunnlaugsson, þingmaður Pírata.
Rúmlega 95 prósent af tekjum Pírata og Flokks fólksins komu úr ríkissjóði
Flokkur fólksins hagnaðist um 27 milljónir króna í fyrra en Píratar töpuðu 11,7 milljónum. Báðir flokkarnir fengu engin framlög yfir 200 þúsund krónum og komu tekjur þeirra að uppistöðu úr ríkissjóði.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Ófyrirséður viðbótarkostnaður vegna nýs Herjólfs 790 milljónir
Íslenska ríkið greiðir 532 milljónir króna í viðbótarkostnað vegna lokauppgjörs við pólska skipasmíðastöð og 258 milljónir króna til rekstraraðila Herjólfs til að mæta ófyrirséðum kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Kvikan
Kvikan
Íslenskar valdablokkir, brottvísun þungaðrar konu og Play ... komið til að vera?
Kjarninn 12. nóvember 2019
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG.
Markmiðið að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og ámælisverða háttsemi
Forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um vernd uppljóstrara. Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Svo virðist sem viðleitni stærstu lífeyrissjóða landsins til að hægja á umferð lántöku vegna húsnæðiskaupa hjá sér sé að virka.
Lífeyrissjóðir hafa lánað 15 prósent minna til húsnæðiskaupa en í fyrra
Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa verið að þrengja lánaskilyrði sín til að reyna að draga úr ásókn í sjóðsfélagslán til húsnæðiskaupa. Það virðist vera að virka. Mun minna hefur fengist lánað hjá lífeyrissjóðum það sem af er ári en á sama tíma í fyrra.
Kjarninn 12. nóvember 2019
Meira úr sama flokkiLeiðari
None