Um gildi þess að smella á Play

Auglýsing

Mikil umræða hefur skapast innan tónlistargeirans og víðar undanfarin misseri um þær breytingar sem orðið hafa á myndun tekna vegna hljóðritaðrar tónlistar. Sitt sýnist hverjum og hefur umræðan oft litast af ranghugmyndum eða óskýrum upplýsingum. Ætlun mín með þessum pistli er að varpa ljósi á mikilvægar staðreyndir í þessum efnum.

Undanfarna áratugi hafa tekjur rétthafa tónlistar á hljómplötum (flytjenda, útgefenda og höfunda) aðallega verið þrennskonar. Sala tónlistar beint til neytenda, tekjur af flutningi tónlistar í útvarpi, notkun tónlistar í auglýsingum, kvikmyndum og slíku. Fyrir ríflega 10 árum bættist við sala á niðurhali og aðgengi að tónlist í gegnum áskriftarveitur á netinu. Í dag er neysla almennings á tónlist á afar hraðri leið frá beinum kaupum tónlistar yfir í ótakmarkað aðgengi að henni með áskrift að tónlistarveitum.

Á Íslandi er algengast að útgefandi greiði fyrir upptökur og annað sem þarf til að koma hljómplötu á markað. Samningur milli útgefanda og flytjanda tilgreinir svo hvernig þeir skipta með sér hagnaði - ef hann myndast. Höfundar fá um það bil 10% af öllu söluverðmæti útgáfunnar, óháð afkomu hennar. Tekjur vegna opinbers flutnings í útvarpi skiptast þannig að hver rétthafi fær sinn skerf samkvæmt samningum útvarpsstöðvar við rétthafahópana. Þar hefur hlutur höfunda ætíð verið stærstur en hlutur útgefenda og flytjenda innbyrðis jafnhár. Vegna notkunar hljóðrita í kvikmyndum, auglýsingum eða slíku hafa greiðslur skipst með líkum hætti og vegna flutnings í útvarpi. Tekjur frá tónlistarveitum skiptast á álíka hátt og vegna plötusölu.

Auglýsing

Eðlisbreyting í tekjumyndun

Nú hefur átt sér stað eðlisbreyting á tekjumyndun rétthafa því sala á tónlist fer í æ ríkari mæli fram milli tónlistarveitu og áskrifanda. Slagurinn um þessar tekjur snýst um hvað áskrifandinn kýs að spila því ef ekki er smellt á play á tilteknu hljóðriti þá fá rétthafar þess engar tekjur. En hverjar eru tekjurnar ef smellt er á play? Um það gætir gjarnan misskilnings.

Áskriftargjaldi að tónlistarveitum er almennt skipt þannig að 70% renna til rétthafa en veitan heldur eftir 30% gjaldsins. Skerfur rétthafa er settur í “pott” - einn pott fyrir hverja áskriftarleið að veitunni - og úr hverjum potti deilast tekjur til rétthafa allra þeirra laga sem spiluð eru af öllum notendum viðkomandi áskriftarleiðar - í réttu hlutfalli við fjölda spilana. Þessi aðferð er kölluð pro-rata. Hún er flókin en skilvirk.

Gjaldið sem einn áskrifandi greiðir berst því ekki einvörðungu til rétthafa þeirrar tónlistar sem áskrifandinn kýs að spila. Um sanngirni þessarar aðferðar skal ósagt látið hér en gerðar hafa verið rannsóknir í Noregi og Danmörku á því hvaða áhrif það hefði á skiptingu tekna að farin yrði svökölluð user-centric leið. Með henni væri áskriftargjald hvers og eins notanda greitt til rétthafa þeirrar tónlistar sem hann hlustaði á. Munurinn reyndist ekki verulegur en þó kom á daginn að rétthafar tónlistar listamanna sem njóta aðallega hylli í heimalandi sínu og jaðarlistamanna (e. niche artists) myndu hagnast á síðarnefndu aðferðinni.

Ein króna fyrir hverja spilun

Hver er sameiginleg greiðsla til útgefanda og flytjanda fyrir eina spilun á einu lagi? Einfalda svarið er um það bil ein króna fyrir spilun á einu lagi en það er meðaltal þess sem íslenska dreifingarfyrirtækið D3 hefur undanfarin ár fengið greitt frá Spotify fyrir hverja spilun. Þessari einu krónu skipta útgefandi og aðalflytjandi (e. main artist) með sér. Greiðsla til höfunda er innt af hendi beint frá tónlistarveitu til innheimtusamtaka höfunda og er því ekki tekin af þessari einu krónu. Leiða má líkur að því að ein spilun skili höfundum lagsins 20 aurum.

En þetta er allt mikil einföldun og sett fram hér til að lýsa tekjuskiptingunni og verðmætunum í grófum dráttum. Þessar upphæðir eru breytilegar eftir því hve mörg lög eru spiluð í hverjum mánuði, hvert áskriftargjaldið er í landi þess sem spilaði, í hvaða áskrifendahópi spilunin á sér stað, hvernig spilun skiptist milli greiðandi áskrifenda og þeirra sem nýta sér ókeypis þjónustu veitunnar o.s.frv. Ef heildarspilun allra áskrifenda er lítil einn mánuðinn eykst verðgildi hverrar spilunar og ef heildarspilun er mikil minnkar verðgildið því áskriftargjald notandans breytist ekki í takt við notkun hans.

Er ein króna á spilun sanngjörn greiðsla? Það hlýtur að fara eftir því hvernig á það er litið. Hafa verður í huga að hér er í flestum tilfellum um að ræða einn hlustanda. Ef greiðslan er borin saman við plötusölu þá kemur í ljós afar óhagstæður samanburður fyrir rétthafa. Hætti tónlistaráhugamaður við að kaupa nýja 10-12 laga geislaplötu, og lætur sér nægja að hlusta á lög plötunnar á tónlistarveitu í staðinn, þarf hann að hlusta meira en 100 sinnum á plötuna til að tekjur rétthafa jafnist á við sölu einnar geislaplötu.

Verðlaust" lag fær virði á ný 

Hin hliðin á þessum litla krónupeningi er sú að um getur verið að ræða lag sem hvergi er lengur fáanlegt í verslunum. Skyndilega myndar þetta áður „verðlausa“ lag tekjur á ný ef það fær spilun á veitunni.

Önnur jákvæð hlið á þessari þróun er að með tilkomu tónlistarveita, sem bjóða aðgang að gríðarlegu úrvali tónlistar gegn hóflegri greiðslu, hefur orðið til nýr hópur neytenda sem hefur aldrei greitt fyrir tónlistarnotkun sína eða var löngu hættur því. Áskrifandi að tónlistarveitu greiðir nærri 20.000 krónur á ári fyrir aðganginn. Það jafngildir 5-6 geislaplötum á fullu verði sem eru mun fleiri plötur en Íslendingar hafa nokkru sinni keypt árlega að jafnaði.

Á undanförnum árum hefur dregið úr sölu geislaplatna án þess að aðrir tekjustraumar hafi komist nærri því að bæta upp þann tekjumissi sem sölusamdrátturinn veldur. Eftir að Spotify hóf að bjóða þjónustu sína á Íslandi hafa tekjur rétthafa vegna stafrænnar neyslu tónlistar á Íslandi vissulega aukist mjög. Aukning tekna erlendra rétthafa er þó mun meiri en þeirra íslensku.

Það dylst fáum að með tilkomu Spotify hefur stafræn neysla á tónlist á Íslandi komið upp á yfirborðið eftir að hafa í miklum mæli verið bundin við ýmsar mislöglegar leiðir tónlistaráhugafólks til að finna þá tónlist sem það vildi hlusta á. Tónlistarveitur svöruðu kalli sístækkandi hóps sem vildi fá sína tónlist í nær takmarkalausu úrvali hvar og hvenær sem honum hentaði.

Sala hefur dregist mikið saman

Sala erlendrar tónlistar á Íslandi dróst saman um 80% á árunum frá 2000 til 2013. Neyslan minnkaði ekki að sama skapi heldur jókst hún að líkindum til muna enda aðgengi að tónlist í raun meira en áður. Á örfáum árum breyttist hlutfall sölu hér á landi úr því að vera 70% erlend tónlist og 30% íslensk tónlist í 30% erlenda og 70% íslenska tónlist. Sumsé alger viðsnúningur.

Íslenskir Spotify notendur spila nú um það bil 80% erlenda tónlist og 20% íslenska. Þessar tölur eru sterk vísbending um að lítið hafi í raun breyst hvað neyslu varðaði á árunum 2000 til 2013 heldur hafi neysla á erlendri tónlist fyrst og fremst horfið um skeið af yfirborðinu vegna ólöglegs niðurhals og annarra leiða sem ekki skiluðu tekjum til rétthafa. Það er gleðiefni að hún sé nú aftur orðin sýnileg en þessi þróun í heild skapar þó um leið vandamál fyrir íslenska tónlistariðnaðinn.

Sala innlendra geislaplata hefur minnkað stöðugt á undanförnum sjö árum og er nú ríflega helmingur sölu ársins 2008. Á sama tíma hafa tekjur innlendra rétthafa af tónlistarveitum aukist en sú aukning kemst þó enn hvergi nærri því að brúa bilið. Tekjutap í eintakasölu á ársgrundvelli nemur 180 milljónum króna milli áranna 2008 og 2014 en aukning í tekjum stafrænnar neyslu er aðeins um 30 milljónir króna á ársgrundvelli á sama tímabili. Stærsti vandi íslenskra tónlistarútgefenda í dag snýr enda að fjármögnun nýrra hljóðrita því nú kemur mun minna í kassann til að standa undir upptöku- og útgáfukostnaði. Rétt er að benda á að útgefandi getur verið fyrirtæki, hljómsveit eða einstaklingur. Útgefandi er hver sá sem er ábyrgur fyrir fjárhagslegri og markaðslegri hlið útgáfunnar.

Opinber stuðningur þarf að koma til

Ef ekki á illa að fara verður að koma til opinber stuðningur við íslenska tónlistarhljóðritun en slíkt mun vera í vinnslu og ber að fagna því. En fleira þarf að breytast. Til að ný tónlistarútgáfa geti staðið undir sér í framtíðinni verður að eiga sér stað aukning á spilun íslenskrar tónlistar á tónlistarveitum. Stærstur hluti íslenskrar tónlistar er í boði á Spotify og nær öll útgefin íslensk tónlist er í boði á Tónlist.is. Hvert play skilar rétthöfum tekjum.

Vert er að benda tónlistaráhugafólki og rétthöfum á að þegar tónlist er deilt á samfélagsmiðlum þá er reginmunur á því hvernig er deilt. Algengast er að fólk deili hlekkjum frá YouTube sem skilar rétthöfum ýmist engum eða sáralitlum tekjum. Áætlað er að ein spilun á YouTube skili aðeins um 10% af þeim tekjum sem ein spilun á tónlistarveitu skilar. En ef deilt er hlekk á Spotify skilar hver spilun tekjum eins og um venjulega spilun á Spotify sé að ræða.

Augljóst er hvert tónlistarneyslan stefnir. Plötubúðum fækkar og úrval þeirra minnkar en tónlistarveitur eru alltaf opnar og bjóða óþrjótandi úrval. Það er að mörgu leyti frábær þróun fyrir neytendur sem hafa aðgang að nær allri tónlist hvar og hvenær sem er. Þjónustan sem veitur á borð við Spotify og Tónlist.is bjóða er afbragðsgóð og neytendur hafa með þeim og öðrum veitum aðgang að stærri plötubúðum en nokkru sinni hafa verið til.

Á þeim mörkuðum sem tónlistarveitur hafa starfað lengst og náð mestum árangri ríkir nokkuð almennt sátt meðal rétthafa um þróun mála en segja má að hugmyndafræðin bak við tónlistarveitur byggist á að mjög verulegur fjöldi einstaklinga gerist áskrifendur og með því skapist jafnvægi í þeirri þróun sem á undan hefur verið lýst. Í Svíþjóð er nærri fimmtungur landsmanna greiðandi áskrifendur að Spotify og tölurnar eru svipaðar á öðrum Norðurlöndum þótt veiturnar séu jafnvel aðrar og fleiri. Allt að 90% sölutekna rétthafa í þessum löndum koma frá tónlistarveitum. Á Íslandi eru tæplega 10% landsmanna greiðandi áskrifendur að tónlistarveitum en 60% tekna vegna sölu á íslenskri tónlist koma þó enn frá sölu eintaka, CD eða LP. Þetta breytist þó afar hratt.

Tónlist er hljóðrás lífs okkar flestra 

Tónlistin er líklega sú listgrein sem við getum fæst lifað án. Hún er alltumlykjandi. Hún er hljóðrás lífs okkar flestra. Jafnvel þeir sem telja sig njóta tónlistar í litlum mæli tengja gjarnan tónlist við stærstu stundir lífs síns eða eftirminnilegustu augnablik. Með allri virðingu fyrir annarri afþreyingu eða listgreinum þá stendur tónlist okkur flestum næst.

Framtíð íslenskrar tónlistar er best tryggð með því að neyta hennar og njóta löglega, á þann hátt sem tryggir réttlátt endurgjald til handa þeim sem skapa hana.

Höfundur er tónlistarmaður, tónleikahaldari, framkvæmdastjóri Félags hljómplötuframleiðenda og starfar einnig við stafræna dreifingu tónlistar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None