Framtíðin flýr – fortíðin situr eftir

Auglýsing

Í sérhverju hruni býr nýtt upphaf sögðu ófáir fyrstu mánuðina eftir efnahagshrunið, sem var fjarri því einvörðungu bundið við efnahaginn, því óvænt blasti við okkur átakanleg vanhæfni og djúpstæður skortur á fagmennsku í íslensku samfélagi. Það var svo augljóst að ef hér ætti að þrífast nútímalegt samfélag sem legði áherslu á menntun, fagmennsku og jafna möguleika í anda norrænna velferðakerfisins, þá þyrftum við að breyta mörgu, mjög mörgu. Og viljinn var sannarlega fyrir hendi hjá þjóðinni. Það voru stór orð, yfirlýsingar, og Rannsóknarskýrsla Alþingis upp á 1500 blaðsíður. Síðan hafa liðið allnokkur ár. Fátt hefur breyst, sömu hagsmunaöfl stjórna landinu, en það er hinsvegar allt á uppleið, við vekjum heimsathygli og aðdáun fyrir að vinna okkur á methraða upp úr kreppunni, Seðlabankinn spáir áframhaldandi bata á vinnumarkaði, fjölgun starfa. Við erum stórkostleg þjóð, búum í stórkostlegu landi, eigum listamenn á heimsmælikvarða, fótboltalandsliðið er á leið á Evrópumótið í knattspyrnu – ætti heimurinn ekki að standa upp og klappa fyrir okkur?

Trú sem er óþægilega nálægt örvæntingu 

Og samt hafa sjaldan jafnmargir íslenskir ríkisborgarar flutt af landi brott og á þessu ári. Það er jafnvel talað um landflótta, og einkum ungt menntafólk sem flytur burt. „Þetta eru ekki kreppuflutningar“, sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands í viðtali við Morgunblaðið, og bætti við: „Það er eitthvað djúpstæðara á ferðinni núna.“

Eitthvað djúpstæðara. Allt á uppleið, peningar aftur farnir að flæða, en samt flýja hinir ungu. Það er framtíðin sem flýr Ísland – og fortíðin situr eftir. Okkur tókst kannski að sigrast á efnahagskreppunni, og komast í heimsfréttirnar, en mistókst nær algerlega að sigrast á mun djúpstæðari, alvarlegri þjóðfélagskreppu. Við reistum bankana, efnahaginn, en gáfumst upp á að laga innviði samfélagsins. Efnahagsbatinn hvílir á sömu morknu samfélagstoðunum og blöstu við okkur eftir hrunið. Þessvegan flýr unga fólkið. Vegna þess að samfélagið er, ef ekki ónýtt, þá vanbúið, spillt, ófaglegt. Vegna þess að stjórnmálamenn hafa nær allir brugðist. Hægri menn fastir í hagsmunapoti og lausnum gærdagsins, vinstrimenn sundraðir, ráðvilltir eða bara hugmyndasnauðir, og skortir stærðina í sér til að sameinast. Eina vonin virðist vera í Pírötum. Og þá kannski þá helst vegna þess að þeir hafa aldrei komið nálægt völdum. Trú okkar á þeim óþægilega nálægt örvæntingu.

Auglýsing

Nýtt Ísland – sykur og álver?

Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, er haft eftir Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritsjóra Morgunblaðsins í Rannsóknarskýrslunni, harður dómur frá manni sem í áratugi var í miðju þessa sama þjóðfélags, þáttakandi og áhrifavaldur – orð hans hljóta því að hafa vigt. Álit hans styðst við eitthvað annað en loft. „Það eru engin prinsipp“, sagði hann, „það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Þetta er dómur manns úr innsta hring um samfélag okkar fyrir hrun.

Og ef íslenskt samfélag hefur lítið breyst frá því fyrir hrun, er það þá ekki ennþá „ógeðslegt“, plagað af tækifærismennsku? Er hægt að tala um framtíðarsýn hjá leiðtogum okkar? Aukna áherslu á menntun, langtímahugsun, fjölbreytileika, fagmennsku?

Sigmundur Davíð forsætisráðherra dró óvart saman áherslur og sýn þessara tiltölulega ungu manna sem nú stýra landinu (já, að mestu ungir karlmenn í valdamestu embættunum), í ræðu sem hann hélt þegar hann klippti á borða vegna væntanlegs álvers á Bakka. Sumir stjórnmálamenn, sagði Sigmundur, hafa mestan áhuga á samgöngum, aðrir heilbrigðiskerfinu, sumir eru uppteknir af menningu og listum, en hann væri í hópi þeirra stjórnmálamanna sem teldu mikilvægast að skapa störf. Ef fólk, útskýrði hann, væri án atvinnu, skapaðist ekki tekjugrunnur, án vinnu væru hvorki listir né heilbrigðiskerfi. Það skiptir mestu, sagði Sigmundur Davíð, að stjórnmálamenn áttuðu sig á því.

Er það ekki ákveðinn dómur yfir samfélagi okkar að jafn ungur maður nái jafn langt með jafn forneskjulegar hugmyndir? Að æðsti maður landsins líti þannig á að hugtakið vinna” eigi ekki við listir og heilbrigðiskerfi, að því fylgi eingöngu kostnaður, og að það séu fyrst og síðast frumstörfin sem haldi öllu uppi? Þessvegna verði að halda áfram að raska náttúrunni stórlega, setja gríðarlegar upphæðir í að undirbúa nýtt álver, með örfá störf fyrir langmenntað fólk, og drjúgur hluti gróðans fer í vasa erlendra stórfyrirtækja, sem að auki fá rafmagnið á útsölu. Og allt þetta svo við getum lesið bækur, farið á tónleika, haft aðgang að góðri” heilbrigðisþjónustu. Á hvaða öld lifir Sigmundur Davíð? Veit hann ekki að t.d Airwaves skilar milljörðum í þjóðarbúið, að framlag ritlistar til verðmætasköpunar er metið á næstum 30 milljarða á ári, að íslenskar kvikmyndir skila minnst fjórum krónum inn í þjóðarbúið fyrir hverja eina sem þær fá í styrk? Á hvaða öld lifir forsætisráðherra sem leiðir ríkisstjórn sem lækkar skatt á sykur en hækkar skatt á bækur, tónlist?

Nýtt Ísland – sykur og álver?

Spurning er því: Afhverju ætti unga fólkið ekki að flytja burt? 

Nýtt Ísland – og laskað helbrigðiskerfi. Þar sem starfsmenn eru að niðurlotum komnir vegna of mikils álags, tíð verkföll lama Landspítalann sem glímir við þrálátan fjárskort, en á meðan stóreykst styrkur ríkisins til einkaaðila; Klíníkin Ármúla fær sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir hvert viðvik, og í fjáraukalögum er beiðni upp á nokkra milljarða til einkageirans, sem stórgræðir meðan Landspítalann þverr máttur, missir hæft starfsfólk, neyðist til að draga úr þjónustu. Við fjarlægjumst norræna velferðakerfið og stefnum örugglega í átt að samfélagi þar sem hinir efnameiri fá betri þjónustu, betri heilsu, betra líf.

Þetta er Ísland eftir hrun.

Samfélag þar sem hinir efnameiri hafa einfaldlega meiri rétt í krafti fjármuna. Það er „engin stefnumótun í heilbrigðismálum“, sagði sjálfur heilbrigðisráðherra á fundi um íslenska heilbrigðiskerfið snemma í haust. En hann hefur rangt fyrir sér, stefnumótunin blasir við: að styrkja einkageirann á kostnað ríkisspítala. Að mismuna sjúklingum eftir efnahag. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Bjarni og Sigmundur hafa sjaldan reynt að fela fyrir hvað þeir standa. Þeirra fyrsta verk eftir kosningar var ekki að lýsa eftir nýjum leiðum til að byggja upp samfélagið, kalla eftir aðkomu þjóðar, heita því að læra af mistökum fortíðar, heldur að lækka skatta á sjávarútveginn – sem aldrei í sögu landsins hefur skilað jafn miklum gróða - og á hina efnamestu. Sem þeir tveir, alveg óvart, eru hluti af. Þar með var tónninn gefinn.

„Þetta er ógeðslegt samfélag. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska.“

Hvers vegna flyst ungt, menntað fólk frá Íslandi?

Fyrirgefið mér, röng spurning: Hversvegna ætti það ekki að flytja? Hversvegna ætti það ekki að flytja frá landi þar sem einungis um 10 prósent af auðlindarentu sjávarútvegsins rennur til samfélagsins, en 90 prósent í vasa örfárra fjölskyldna – um 80 prósent af olíuauð Norðmanna rennur beint í þjóðarbúið. Þessi sláandi mismunur sýnir hversu frumstætt þjóðfélagið er hérna. Það er eins og við höfum aldrei reynt að sammælast um hvernig þjóðfélag við viljum hafa. Þessvegna vantar allt jafnvægi. Þessvegna eru stjórnmál hér ekki tilraun til samvinnu, heldur bardagi þar sem allt snýst um að koma höggi á andstæðinginn – og hver ný stjórn reynir að breyta ákvörðun fyrri stjórnar í mikilvægustu málunum. Lítið jafnvægi, mikil ókyrrð. Lítil fagmennska, mikil tækifærismennska. 

Það blasti við eftir hrunið, við fengum tækifæri til að byggja upp nýtt samfélag, en okkur mistókst. Tækifærismennskan settist í forsætisráðherrastólinn, hagsmunaöflin fengu fjármálaráðuneytið, Orka Energy menntamálaráðuneytið, Kaupfélag Skagfirðinga utanríkisráðuneytið. Og þverrandi von um breytt og betra samfélag; bitur reynsla fortíðar hvíslar að okkur að fátt muni lagast hér, ekki í alvöru, ekki í grunninn. Spurning er því: Afhverju ætti unga fólkið ekki að flytja burt?  

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None