Árásirnar í París í gær eru reiðarslag fyrir Evrópu, á viðkvæmum tímum. Í samúðarskeytum þjóðhöfðingja víða um heim mátti greina þetta augljóslega. Barack Obama forseti Bandaríkjanna sagði árásirnar beinast að mannkyninu í heild, og að þær ættu að vekja ótta hjá almenningi. Ef það tækist þá væri markmiði hryðjuverkamannanna náð.
Þó hugurinn sé nú hjá íbúum Parísar, aðstandendum þeirra sem létu lífið og hinum særðu, þá er óhjákvæmlega erfitt að aðskilja þessa atburði frá þeim milljónum sem nú streyma frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Írak og Afganistan til Evrópu. Í versta falli geta árásir sem þessar bitnað á flóttamönnum beint, vegna aðgerða sem þjóðir grípa til vegna ótta við frekari árásir. Þá er því miður hætt við því að ýmsar fordómafullar raddir hljómi enn hærra en venjulega. Sem fyrr verður sá hljómur falskur, og ranghugmyndir sem fordómum fylgja eiga jafn lítið erindi í samfélögin og áður.
Nú reynir á að samstaða um að hrinda frá óttanum sé í forgrunni, og hjálparhöndin til þeirra sem minna mega sín jafn útrétt og áður.
Það er síðan umhugsunarefni, hvers vegna glæpamennirnir sem drepa blásaklaust fólk upp úr engu, hvort sem það er í Sýrlandi eða París, fá að skreyta sig með trúarlegum vængjum í opinberri umræðu. Riddarar trúarbragðanna sem þeir kenna sig við eru þeir ekki, svo mikið er víst. Þaulskipulögð fjöldamorð með þungavopnum eru fyrst og síðast grimmilegir glæpir, og aðeins múgheimsku fólki dettur það í hug, að tengja trúarbrögð hundruð milljóna manna í heiminum við þau sérstaklega.
Megi góðmennskan, víðsýnin og samstaðan gegn óttanum sigra að lokum.