Sorgin vegna árásanna í París er enn yfirþyrmandi. Hugur fólks er hjá fórnarlömbunum. Það hefur verið gott að sjá ráðamenn Evrópuríkja senda strax út þau skilaboð, að fólk eigi ekki að tengja árásirnar í París við það, að milljónir manna væru nú að flýja til Evrópu, ekki síst undan íslamska ríkinu og voðaverkum þess í Sýrlandi, Írak og Afganistan.
Almennt ættu þeir, sem einhverra hluta vegna tengja landamæraeftirlit í Evrópu við árásirnar, að hugsa málin til enda og velta því fyrir sér, hvaða tilgangi það þjónar að draga ályktanir í þá veru. Sérstaklega þegar það er gert nánast á sama tíma og árásirnar eiga sér stað, eins og formaður Landssambands lögreglumanna, Snorri Magnússon, gerði.
Samstaðan með fórnarlömbunum ætti öðru fremur að vera samstaða gegn óttanum sem hryðjuverkamenn eru að reyna að skapa. Afleiðingar stríðs, eins og nú geysar af fullum þunga í Sýrlandi, Írak og Afganistan - og raunar á fleirum svæðum í grennd - eru því miður þær, að hatur tekur völdin. Og hatrið á sér lítil takmörk, eins og tíðar hörmulegar árásir á óbreytta borgara víða um heiminn að undanförnu sýna.
Með því að vinna gegn óttanum, er verið að vinna gegn því að hryðjuverkamenn nái fram takmarki sínu. Neikvæð áhrif haturs verða fyrir vikið minni. Samstaðan verður að snúast um þetta, og síðan er lítið annað hægt að gera en að vona að stríðsátökunum linni.