Fyrstu gárurnar í jólabókaflóðinu í ár voru ljóðabækur. Kannski er það alltaf þannig, en fljótlega varð ljóst að nú var óvenjumikið af bitastæðum bókum í flæðarmálinu. Þegar tíminn og rýmið er takmarkað er nauðsynlegt að fara hratt yfir sögu svo ég hef ákveðið að skrifa stuttar umsagnir um nokkrar þessara bóka í einum pistli.
Linda Vilhjálmsdóttir
Frelsi
Mál og menning
„Meitluð reiði“ einkennir þessa bók umfram annað. Linda eyðir ekki mörgum orðum en eyðir sennilega eftir því mörgum stundum í að velja þau. „Beisluð kaldhæðni“ væri líka einkunn sem mætti nota. Kaldhæðni beitt fyrir vagn þess erindis að segja samtímanum til syndanna.
Segja má að bókin skiptist í þrjá ljóðabálka, eða jafnvel þrjú samfelld ljóð, með inngangi. Grípum niður í fyrsta hluta þar sem grillið er leiðarstefið, að manni sýnist að góðborgarar fletti yfirbreiðslunni á kvöldin:
Í stað þess að grafa kjötið í jörðu
var ákveðið að fýra upp í grillinu
í góðgerðarskyni og bjóða þeim
verst settu í garðinn í ókeypis löns
Því sem af gengur
þegar við skellum í lás
verður fleygt fyrir hrafninn og hundana
og restin fer út fyrir girðingu á haugana
Þar sem úrgangur mannlífsins
endar í málfræðilegri hagræðingu
svo að eftir standa sótthreinsuð sorporð
eins og förgun urðun losun og gereyðing
Eins og ég sagði: Meitluð reiði, beisluð kaldhæðni.
Annar hlutinn lýsir ferð til Landsins helga, sem er Lindu alls ekki heilagt – samhengi sögu og nútímaskelfingarinnar liggur ljóst fyrir í þessum glæsilega texta.
Í þeim þriðja er röðin komin að stjórnmálunum og glæpum þeirra – glæpum gegn náttúrunni, framtíðinni og – kannski ekki síst – tungumálinu. Skriðþunginn og mælskan vex eftir því sem líður á bókina, málaginn og orðvísin láta stundum allt að því undan erindinu. En bara næstum því.
Útkoman er mín eftirlætisljóðabók þessa árs.
Bubbi Morthens
Öskraðu gat á myrkrið
Mál og menning
Auðvitað hefur það áhrif á viðtökur þessarra ljóða að hér yrkir þjóðfrægur maður sem hefur svo sannarlega ekki sett ljós sitt undir mæliker. Fyrir vikið verður yrkisefni Bubba: erfið lífsreynsla, barátta við fíknina og tilfinningaleg úrvinnsla þessa, engin sérstök opinberun. Við höfum heyrt þetta áður. Einn styrkur hennar er fólgin í kraftinum sem býr að baki – sálarlífsólgunni sem þeytir orðunum á pappírinn. Kannski líka veikleiki, á köflum væri fengur að meiri ögun, fjölbreyttari efnistökum, færri orðum. Sérstaklega þegar bókin er lesin frá upphafi til enda í einni setu. Sem hún líka kallar á – þetta er samfellt verk, ekki ljóðasafn.
Það vinnur síðan með bókinni hvað hún kemur á köflum vel út í samanburði við það sem lægst flýgur af því mikla magni ljóðræns texta sem frá Bubba hefur komið í gegnum árin. Hún rifjar líka upp fyrir manni hvað hann hefur stundum fundið og dregið upp snjallar og sterkar myndir:
Þú vaknar grillaður
rígheldur þér
í myrkrið
reiðin ryðst
eins og svört eðja
inní vitund þína
og öskrar
þögn ég heimta þögn
það var alltof seint
enginn hafði rekist á þögnina
í áratugi
Það er allavega ljóst að Bubbi Morthens á algerlega erindi á þennan vettvang, og blasir við að Öskraðu gat á myrkrið mun gefa þeim sem ekki fella sig við tónlistina tækifæri til að kynnast honum, og þeim af aðdáendunum, sem mögulega töldu sig ekkert hafa með nútímaljóðlist að gera, tilefni til að hugsa sig aftur um.
Urður Snædal
Píslirnar hennar mömmu
Bókstafur
Húmor og sjálfsháð ræður ríkjum og mótar alla framsetningu Urðar í þessari bók, þar sem móðurhlutverkið, rómantískar hugmyndir um það og árekstur þeirra við raunveruleikann eru til skoðunar.
Þetta er t.d. framúrskarandi:
og þarna er hún allt í einu.
eina manneskjan
i öllum heiminum
sem nær
að heilla mig upp úr skónum
strax
við fyrstu kynni
þótt hún sé nakin
og öskrandi
og með kúk í hárinu.
Stundum þykir pempíum eins og mér kannski Urður fara fullfrjálslega með líkamsvessana. Það hvarfla alveg að manni efasemdir um að knýjandi listræn þörf knýji stærstu gusurnar. Eins er alveg ljóst að margar ljóðabækur ársins eru veigameiri gripir í erindum sínum og listrænum tökum á ljóðforminu. Engu að síður er vonlaust annað en að hafa mikið gaman af samfylgdinni með Urði Snædal. Jafnvel þó áfangastaðirnir séu hversdagslegir:
húsmæðraorlofið mitt
er barnlaus ferð
í Bónus
Stórskemmtileg bók sem allir sem eiga börn, eiga vini sem eiga börn eða hafa verið börn munu finna samhljóm í. Og hlæja.
Sjón
Gráspörvar og ígulker
JPV
Hvernig bindur maður óbundið mál? Hvað gerir ljóð að ljóði? Sjón svarar þessu á allskonar hátt í Gráspörvum og ígulkerjum, og var það fyrsta sem ég festi athyglina á við lestur bókarinnar. Umfram innihaldið. Það má.
b ó k i n u m s n j ó i n n
hún hefst á tilvitnun sem inniheldur orðið augnhvíta
í annarri málsgrein kemur fyrir kvenmannsnafnið drífa
og er sagt bera með sér gæfu sé það gefið tvíburasystur
þriðji kafli segir frá rúmlaki sem blaktir fyrir hægum vindi
á snúru aftan við þrílyft hús í brekku þaðan sem sér út langan fjörð
fjórði hlutinn gerist á afkastamiklu mjólkurbúi þar sem mjólkin
freyðir í mjaltafötunum og skyr er hrært í risastórum stálgámi
á lokasíðunni tuldrar gamalmenni: „svefnblár, hann var svefnblár“
Textarnir í bókinni taka ótal form, en öll eru þau form. Yrkisefnin eru illáþreifanleg með öðrum orðum en ljóðanna. Náttúra, yfirnáttúra, goðsögur og veruleiki á því súrrealíska stefnumóti sem við sem byrjuðum að lesa ljóð Sjóns á menntaskólaárunum á níunda áratugnum þekkjum og allir ættu að njóta þess að kynnast. Það er enn kengur í þessum galdri. Þrátt fyrir þessu snjöllu varnaðarorð af baksíðunni:
það vill henda í ljóðum
að þegar þokunni léttir
taki hún með sér fjallið
Yndisleg lítil bók.
Óskar Árni Óskarsson
Blýengillinn
Bjartur
Hér ægir saman allskyns textum, smíðuðum út frá ansi ólíkum ljóðrænum og fagurfræðilegum forsendum. Alltaf er samt hin lága og hversdagslega stemming ríkjandi, ef það er rétta orðið. Ekki skáld tilfinningaólgunnar eða mælginnar, Óskar. Mér finnst nú ekki allt hitta í mark. En þegar best lætur fer andinn á flug, þegar óvæntu ljósi er brugðið á hversdagsleikann - og gefnir í skyn harmar sem gætu spannað heila ævi:
Gömul skólasystir
Það var ekki fyrr en hann stoppaði bílinn við Skálann í Vík í Mýrdal að hann áttaði sig á að eitthvað undarlegt var á seyði: Hann hafði tekið ranga konu með sér í sumarfríið. Hann fór að fiska eftir því með hægð hver hún gæti eiginlega verið þessi kona sem sat við hliðina á honum í bílnum. Hann hefði getað sagt sér það sjálfur að ekki var allt með felldu, því ekki var einleikið hvað konan þekkti vel öll örnefni og kennileiti á leiðinni og var óspör á að miðla þessari vitneskju sinni. Eftir að hann hafði lagt fyrir hana nokkrar varfærnar spurningar kom upp úr dúrnum að þetta var gömul skólasystir hans. Og þegar hann fór að spyrja hana nánar um hagi hennar kom í ljós að þau höfðu verið gift í þrjátíu ár og að hún vissi ekki betur en þessi ferð hefði einmitt verið farin í tilefni þeirra tímamóta.
Þetta er einhver besti og snjallasti texti sem ég hef lesið á þessu ári. Þó ekki sé allt jafn frábært og þetta í Blýenglinum þá eru topparnir toppar.
Ljóðabækur fara vel í jólapakka. Þær gefa hönnuðum líka færi á að skína, og sumir þeirra gera það í ár. Allar ofangreindar eru t.d. mjög snotrar, Sjónsbók þó fegurst. Af öðrum augnayndum má t.d. nefna Almanak Ólafs Jóhanns Ólafssonar (Veröld) og frumleg hönnun verðlaunabókar Ragnars Helga Ólafssonar, Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum (Bjartur), fangar líka athyglina. Þar er t.d. þetta eitursnjalla titilljóð – mitt eftirlætis einstaka ljóð ársins og sem sannar hvað þessi tegund tjáningar getur verið leiftrandi, snjöll og ómissandi:
TIL HUGHREYSTINGAR
ÞEIM SEM FINNA SIG EKKI
Í SAMTÍMA SÍNUM
(eða: Í framtíðinni #3)
Í framtíðinni
þegar tímaferðalög verða möguleg;
Fólk fer ennþá á barinn
en skreppur svo aftur í tímann til að fá sér rettu.
Flestir munu hafa atvinnu og búfestu í sinni nútíð
en ferðast í tíma í frítíma sínum.
Í framtíðinni
mun það koma fyrir
– sum kvöld –
að þar verður enginn.