Þorsteinn Gylfason heitinn heimspekiprófessor, var afburðamaður í fagi sínu og eftirminnilegur. Afköstin á löngum ferli voru með ólíkindum, og þegar hann blandaði sér í opinbera umræðu, þá lagði hann gott til málanna, og oft hyldjúpa speki. Lesbók Morgunblaðsins var oft vettvangur sjónarmiða hans.
Þorsteinn gat líka sett hluti í hversdagslegt samhengi, og gerði það eftirminnilega á fundi um siðfræði stríðsátaka, árið 2002, þar sem heimspekinemar hlýddu á.
Hann hóf erindi sitt á því að segja frá því, að hann hefði sem ungur piltur, þegar hann var í sveit í Skagafirði, orðið vitni að átökum sem augljóslega byggðu á skýrum siðferðislögmálum. Tveir menn hefðu þá brett upp ermar á balli, staðið í hringamiðju, og gefið hvor öðrum kröftugleg högg öðru hvoru. Hvorugur gekk of langt, og þegar upp var staðið reyndust þetta hinir mestu mátar. Þetta voru átök innan ákveðins siðferðisramma sem var virtur, sagði Þorsteinn, með hnefann á lofti. Í framhaldinu skautaði hann síðan í gegnum fræðin, söguna og álitamálin sem uppi eru þegar stríð eru annars vegar.
Því miður stendur heimsbyggðin nú frammi fyrir stríðsátökum sem hafa magnast upp á skömmum tíma, með hrikalegum afleiðingum. Ólíkt átökunum á ballinu í Skagafirði, virðast siðferðisrammar ekki vera fyrir hendi, og fá fordæmi eru fyrir þeirri ofbeldisfullu illsku sem nú sést í Sýrlandi sérstaklega, en einnig í Írak, Afganistan og nágrenni. Það er ekki undarlegt að milljónir manna séu á flótta. Alþjóðalög eru þverbrotin, óumdeilanlega, og vestrænar þjóðir eru ekki saklausar af slíku, eins og nýleg árás Bandaríkjamanna á Lækna án landamæra er til vitnis um.
Spurningarnar sem þjóðhöfðingjar og herstjórar standa frammi fyrir í stríðum, eru oft spennuþrungnar og snúnar. Þær snúast um líf og dauða, og fórnarkostnað. Hvenær er verjandi að drepa fólk til þess að vernda hagsmuni heildarinnar? Í hvaða aðstæðum er penninn beittara vopn en sverðið?
Veik von er til þess að friður ríki þar sem ófriður stríðs er nú í hámarki. En það er þess virði að halda í hana. Áður en lengra er haldið, þyrfti að marka átökunum siðferðisramma í takt við alþjóða- og herlög, svo að diplómatískur styrkur alþjóðasamstarf geti fengið fótfestu. Á meðan þeim tímapunkti hefur ekki verið náð, reynir á þolgæði og styrk á vígvellinum.
En stjórnmálamenn sem eru fjarri lykilákvörðunum í stríðum, til dæmis á Íslandi, geta lagt eitt til málanna, í baráttunni við ill öfl haturs. Það er að ýta aldrei undir ótta á meðal almennings eða sundurlyndi. Það, að vekja upp ótta, er oft það eina sem vakir fyrir hatursfullu fólki sem telur sig geta verið utan siðferðisrammans í mannlegum samfélögum. Gegn slíku þarf að vinna, og til þess er penninn betri en sverðið, einkum og sér í lagi hjá þeim sem ekkert sverð hafa í búri sínu.