Byggðamál eru oft í brennidepli, og þá ekki síst meintur rígur milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Það glittir hins vegar oft einnig í ríginn milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Á bæjarráðsfundi í Kópavogi, í byrjun síðasta mánaðar, kom fram mikil óánægja hjá kjörnum fulltrúum í Kópavogi með það, hversu mikið Reykjavíkurborg fengi úr ríkissjóði vegna fasteignagjalda. Á hverju ári fær Reykjavíkurborg um einn milljarð króna, auk þess sem Vegagerðin hefði greitt tæplega 500 milljónir vegna göngu- og hjólastíga í borginni á árunum 2011 til 2014.
Til samanburðar fær Kópavogsbær um 70 milljónir og fékk um 36 milljónir vegna stígagerðar á fyrrnefndu tímabili. Bæjarráðið beindi því til ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra að hún gætti jafnræðis, þegar staðsetning ríkisstofnanna væri ákveðin.
Ein lausn á þessu vandamáli, ef rétt er að tala um það yfir höfuð, væri að vera ekki með óþarflega mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu heldur kannski bara eitt. Svæðið allt er eitt þjónustusvæði þar sem fólk vinnur í einu sveitarfélagi, býr í öðru og sækir þjónustu þvert á bæjarmörk.
Það þyrfti ekki að rífast mikið um staðsetningar einstaka stofnanna ef þetta væri raunin, og þá væri hægt að láta heilbrigða skynsemi ráða ferðinni og þá hagsmuni sem væru bestir fyrir íbúa á svæðinu öllu.
Vonandi mun sá tími koma, að stjórnmálaflokkarnir í landinu fara að horfa gagnrýnum augum á samrekstur íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru stórkostleg tækifæri til hagræðingar og lífskjarasóknar.