Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í vikunni frumvarp sem kom fram hjá þingmönnum Repúblikana um að fresta komu flóttamanna frá Sýrlandi og Írak. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði að bandarísk stjórnmála væru á vondum stað ef þau létu stjórnast af hræðsluáróðri, eftir skelfilegar hryðjuverkaárásir, eins og þær í París nýverið þar sem 129 létust.
Ótrúlegt verður að teljast að Bandríkin taki afstöðu sem þessa, í ljósi fyrirliggjandi staðreynda um eigin innanmein, vegna ótrúlegra byssuglæpa í landinu. Ekkert þróað ríki land í heiminum er nærri Bandaríkjunum þegar kemur að mannfalli vegna byssuglæpa, samt hefur Bandaríkjaþing lítið sem ekkert gert til þess að stöðva þá þróun, og alls ekki brugðist við með jafn afgerandi hætti og nú er gert gegn flóttafólki í sárri neyð, sem þó hefur engin tengsl við hryðjuverkin. Margfalt fleiri deyja á hverju ári í Bandaríkjunum vegna byssuglæpa heldur en vegna hryðjuverka í öllum hinum vestræna heimi, eins og Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur sjálfur gert að umtalsefni í ræðu.
Samt rísa Repúblikanar ekki upp á afturlapparnir vegna þeirra staðreyndar, heldur reyna frekar að takmarka að flóttamenn komist til landsins, jafnvel þó bandarískt samfélag sé í reynd, byggt upp af flóttafólki, árhundruð aftur í tímann horft. The Economist hefur að undanförnu vakið athygli á því að af þeim 750 þúsund flóttamönnum sem komið hafa til Bandaríkjanna frá því hryðjuverkaárásirnar áttu sér stað í New York, 11. september 2001, þá hefur enginn af þeim komist í kast við lögin vegna gruns um hryðjuverk.
Þetta ætti að vekja þessa þröngsýnu bandarísku stjórnmálamenn til umhugsunar.