Þrátt að horfur í áliðnaði þyki heldur daprar í augnablikinu og fá dæmi séu um það að álfyrirtæki séu að auka framleiðslu á heimsvísu, þá virðist það ekki vera að stoppa forsvarsmenn Klappa Development ehf. í því að reisa 120 þúsund tonna álver við Hafursstaði í Skagabyggð.
Ingvar Unnsteinn Skúlason, forsvarsmaður Klappa, sagði í viðtali við Morgunblaðið að ef ekkert óvænt kæmi upp þá yrði líklega tekin ákvörðun fyrir næsta vor um að reisa álverið.
Að baki Klöppum standa meðal annars kínverskir fjárfestar, en einnig innlendir fjárfestar, meðal annars úr heimahéraði Skagabyggðar.
Forvitnilegt væri að sjá hvað þetta álver mun greiða fyrir raforkuna, ef til þessa verkefnis kemur. Þetta telst lítið álver, og yrði það langminnsta á Íslandi og með þeim allra minnstu í heimi. Kostnaðurinn við raforkuna skiptir sköpum. Vonandi verður fullt gagnsæi í þeim efnum svo almenningur get séð hagsmunina skýrt og greinilega á grundvelli góðra upplýsinga.