Verkfall starfsmanna Rio Tinto Alcan í Straumsvík hefst 2. desember ef ekki tekst að semja. Forsvarsfólk álversins og stjórnendur hafa komið þeim skilaboðum áleiðis, að hugsanlega muni álverið ekki opna aftur, ef verkfall leiðir til þess að starfsemi stöðvast.
Rio Tinto er risavaxið fyrirtækið og hefur á undanförnum árum hagrætt í álframleiðslu sinni, og lokað fjórum álverum á heimsvísu, og selt eignarhluti í fjórum öðrum, á síðustu sex árum.
Vonandi er það ekki svo, að stjórnendur Rio Tinto Alcan séu með innistæðulausar hótanir um að álverið geti hugsanlega lokað, ef verkfall 300 starfsmanna leiðir til stöðvar. Slíkt væri óskaplega óheiðarlegt og beinlínis afleitt.
Hins vegar er staða mála í áliðnaðinum þannig, vegna mikilla verðlækkana að undanförnu, að ekki ætti að koma á óvart ef Rio Tinto ákveður að hagræða enn meira í rekstrinum. Hvort það leiðir til þess að fleiri álverum verður lokað, verður að koma í ljós.
En full ástæða er til þess að búast við því að slíkar ákvarðanir verði teknar, óháð þeirri kjaradeilu sem nú ríkir.