Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra kom eins og stormsveipur inn á hið pólitíska svið þegar hann varð formaður Framsóknarflokksins, í janúar 2009. Hann lét finna vel fyrir sér í opinberri umræðu og gagnrýndi stjórnvöld harðlega við mörg tilefni.
Í nóvember 2009, í umræðum um skatta og breytingar sem þá var verið að gera, sagði hann meðal annars að verið væri að ýta undir landflótta. „Skattar eru þess eðlis að þeir ýta frekar undir landflótta sem er mikið vandamál nú þegar. Þeir leggjast á þá sem hafa meðaltekjur og rúmlega það, fólk sem hefur möguleika á að fá vinnu hvar sem er, ekki síst á Norðurlöndunum. Þetta er fólkið sem er nauðsynlegt til að búa til verðmæti og mynda skattstofnana. Því er verið að eyðileggja skattstofnana,“ sagði Sigmundur Davíð meðal annars í viðtali við Morgunblaðið.
Um þessar mundir er umræða um landflótta aftur komin á flug, eftir að tölur komu fram sem sýndu að 3.120 íslenskir ríkisborgarar hefðu flust úr landi á fyrstu níu mánuðum ársins, og hafa hagfræðingar, meðal annars Katrín Ólafsdóttir og Ásgeir Jónsson, sagt að þetta sé óvenjulegt í þeirri uppsveiflu sem hagtölur sýni núna.
Sigmundur Davíð hefur engar áhyggjur, og segir að ungt fólk vilji skoða heiminn og að fólk sé nú í betri stöðu en fyrir nokkrum árum til að rífa sig upp, selja íbúðina og flytja úr landi. Það sé ekki verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir að fólk vilji skoða heiminn.
Við skulum vona að það skili sér þá heim að lokum og fari að „búa til verðmæti og mynda skattstofnana“ eins og Sigmundur Davíð sagði fyrir sex árum.