Hraður vöxtur ferðaþjónustu hefur sýnt fram á ýmsa bresti í innviðum ferðaþjónustunnar, ekki síst í samgöngumálum víða um landið. Þá hefur það vart farið framhjá neinum, að Keflavíkurflugvöllur hefur varla ráðið við mesta annatímann á vellinum.
Á næsta ári er því spáð að tælega 30 prósent fleiri muni fara um Keflavíkurflugvöll heldur en á þessu ári, en það þýðir um 6,25 milljónir. Fjölga þarf starfsfólki um 1.500 vegna þessa.
Það verður að teljast gríðarlegur fjöldi starfa, á íslenskan mælikvarða. Vonandi verður starfið á flugvellinum styrkt verulega svo að það takist að þjónusta þennan aukna fjölda sem mun fara um völlinn. Ísland á mikið undir góðu orðspori og fátt pirrar ferðamenn meira en leiðinlegar stundir á flugvöllum.
Íslensku flugfélögin Icelandair og WOW Air áforma bæði að ráða samtals hátt í 700 starfsmenn vegna aukinna umsvifa á næsta ári. Óhætt er að segja að mikill kraftur sé í ferðaþjónustunni, vöxturinn líklega án fordæma í íslenskri atvinnusögu, þegar miðað er við fjölda starfa.