Athyglisvert var heyra sjónarmið Hilmars Snorrasonar, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, í viðtali við Kastljósið, þar sem hann ræddi um öryggismál sjómanna. Hann sagði að passa þyrfti sérstaklega að „gleyma sér ekki í unnum sigrum“ en slysum á sjó hefur fækkað nokkuð á undanförnum árum, frá því sem áður var.
Í þrígang frá árinu 2008 hefur sjómönnum tekist að komast í gegnum heilt ár án banaslysa, og sagði Hilmar það vera stærstu stundir Slysavarnaskólans, en hann fagnar þrjátíu ára afmæli um þessar mundir.
Fækkun banaslysa og alvarlegra slysa á sjó er eitt af þeim málum, sem ekki oft eru í opinberri umræðu, en eru samt til vitnis um merkilegt starf og árangur sem náðst hefur með samhentu átaki sjómanna, björgunaraðila, útgerða og annarra, sem tengjast björunar- og forvarnarstarfi á sjó.
Slysavarnaskólanum eru færðar afmæliskveðjur, með von um að hans góða starf haldi áfram að skila miklum samfélagslegum árangri.