Þegar ég sem ung kona bar víurnar í Rauðsokkahreyfinguna og síðar Kvennalistann voru kvenfrelsiskonur alltaf syngjandi. Ég er viss um að það styrkti baráttuandann og samtakamáttinn auk þess að vera almennt upplífgandi. Vonandi hljóma ég ekki eins og uppvakningur frá fyrri öldum þegar ég sting upp á að við tökum aftur upp fjöldasöng sem baráttutæki. Fjórraddaðan femíniskan fjöldasöng. Nú væri til dæmis við hæfi að safnast saman framan við dómsali landsins og syngja hið gamalkuna kvenfrelsislag Dómar heimsins dóttir góð en þar yrkir Jóhannes úr Kötlum:
Dómar heimsins dóttir góð
munu reynast
margvíslegir.
Glímdu sjálf
við sannleikann
hvað sem hver
segir.
Íslenskar konur glíma við sannleikann sem aldrei fyrr á byltingarárinu 2015. Kannski upplifum við um þessar mundir mestu byltingu sem gerð hefur verið síðan stóra kynlífsbyltingin hófst upp úr miðri síðustu öld. Kynlíf og kynheilsa eru eitt það mikilvægasta í lífi fólks og litar út frá sér á önnur svið mannlífsins þannig að ég vil halda því fram að byltingar á sviði kynhegðunar séu með stærstu byltingum í mannheimum.
Fyrir fimmtíu árum vildi fólk sleppa úr helsi siðprýðinnar. Með tilkomu öruggra getnaðarvarna breyttist allt varðandi kynlíf, kynhegðun en ekki síst kynhugsun og umræða. Byltingarnar nú og þá kallast sannarlega á og sumir gætu sagt að kynlífsbyltingin sé að éta börnin sín. Blómabörn sem börðust fyrir auknu kynfrelsi vonuðust örugglega ekki eftir auknu kynferðisofbeldi í kjölfar frelsisins en hvort ofbeldið er afleiðing frelsis er erfitt að segja. Við vitum ekki hvort kynferðisofbeldi er meira nú en áður eða hvort umræðan hefur dregið ævagamlan sannleikann fram í dagsljósið. Alla vega er ég ósammála lögfræðingum sem telja að of mikið sé fjallað um kynferðisofbeldi og dóma um það. Hér legg ég hjarta mitt á vogarskálarnar til að auka umræðuna enn frekar.
Dómstóll götunnar
Við erum heppin hérlendis að búa við kerfi þar sem viturt og réttsýnt fólk setur lög og sér til þess að þeim sé framfylgt. Við eigum kerfi sem reynir að tryggja að þeir sem telja sig órétti beitta geti leitað réttar síns en einnig að enginn sé dæmdur saklaus. Þetta er mikilvægt og ég treysti dómstólum landsins töluvert vel til að sinna því hlutverki sínu og ég verð að segja að mér finnst Héraðsdómur og Hæstiréttur falleg orð. En mér finnst hugtakið Dómstóll götunnar líka fallegt. Þar mæti ég iðulega í réttarsal og tek mér jafnvel stundum sæti í kviðdómi, sjálfskipuð. Vissulega verður almenningur að hafa skoðanir á dómum hinna dómstiganna jafnvel þó að við höfum ekki alltaf aðgang að öllum þeim gögnum sem opinberir dómar byggja á. Dómar Dómstóls götunnar eru mikilvægir vegna þess að við hér úti erum oft á undan kerfinu að skynja að lög eru orðin úrelt og dómar hættir að vera í samræmi við siðferðisskynjun almennings. Dómstóll götunnar er aðhald og öruggisventill.
Þegar dómsvald úrskurðar að það sé fullkomlega eðlilegt kynlíf að fimm strákar fullnægi allir í einu hvötum sínum með kornungri stúlku hlýtur þeim dómi að vera áfrýjað til Dómstóls götunnar enda er nauðsynlegt að skapa um hann umræðu. Annað væri óeðlilegt. Þrátt fyrir að hugmyndauðgin í svefnherbergjunum sé orðin miklu meiri en nokkurt blómabarn gat órað fyrir held ég að fáum Íslendingum finnist hér um eðlilegt kynlíf að ræða. Ég þori að fullyrða að engin stúlka - sem er sextán ára eða hefur verið það - óski sér þessarar meðferðar og ég tel einnig ólíklegt að nokkur sá sem er eða hefur verið ungur maður geti gengið frá slíku kynlífi með hreinan skjöld. Ég held líka að við gerum okkur öll grein fyrir því að stúlkunni var ekki í sjálfsvald sett að segja á einhverjum tímapunkti ,,hei strákar, er þetta ekki komið út í öfgar?” og yfirgefa selskapið. Og við hjá Dómstóli götunnar vitum að það er óvinnandi vegur fyrir stúlku sem hefur upplifað tráma að gefa greinargóðar lýsingar á því kynlífi sem fram fór, síst af öllu frammi fyrir strákunum fimm, verjendum þeirra og héraðsdómurum sem langflestir eru karlkyns. Hjá Dómstóli götunnar sjáum við að það er þörf fyrir nýjan dómstól í kynferðisafbrotamálum sem byggir á meiri þekkingu á viðbrögðum fólks við kynbundnu ofbeldi.
Vitlaust gefið
Umræðan um kynferðisafbrot er blessunarlega rétt að byrja og vonandi fáum við bráðlega með rannsóknum og samtölum enn skýrari mynd af meinsemdinni. Mér dettur ekki í hug að kenna karlmönnum alfarið um kynferðisofbeldi þó að ég telji feðraveldið bera þar allþunga sök. Ég veit að flestir karlmenn styðja konur í baráttunni gegn nauðgunum en það hlýtur þó að teljast áhyggjuefni hve ólík upplifun kynjanna af kynlífi er og væntingar þeirra til þess. Í nýlegum breskum heimildaþætti um netvændi sögðu margir ungir og myndarlegir menn frá reynslu sinni af vændiskaupum á netinu. Þeir telja bæði ódýrara og praktískara að panta kvenmann heim heldur en að eltast við stelpur á djamminu og þeim finnst líka heiðarlegra að eiga opinská peningaviðskipti við bláókunnuga manneskju sem þeir ætla að eiga mök við heldur en að gangast undir siðleysi næturlífsins. Þetta eru gild rök í nútímasamfélagi en það sem ég hnaut um var að allir sögðust þeir geta treyst því að hjá vændiskonum (sex workers) fái þeir það kynlíf sem þeir vilja án þess að eiga á hættu að verða kærðir daginn eftir. Af þessu má draga þá ályktun að margir karlmenn verði að leita til fagfólks til að fá kynlíf að hætti karla. Hvað veldur og hvað er til ráða? Vinsamlegast tekið upp þráðinn og tjáið ykkur um þetta atriði.
Í sama streng tók ungur maður sem hringdi nýlega inn í íslenskan útvarpsþátt og lýsti því yfir að ekki sé lengur hægt að fara heim með bæjarrottum vegna þess að ekkert megi lengur enda sé íslenskt samfélag undir alræðisstjórn öfgafeminista. Það virðist sem þetta viðhorf til feminista verði æ sýnilegra hjá karlmönnum nú þegar kynbræður þeirra koma unnvörpum út úr feministaskápnum. Það er eins og margir karlmenn, og reyndar konur líka, upplifi það svo að um leið og konur fá einhverju framgengt í baráttu sinni hafi öfgafeminismi tekið völdin.
Feminismi er erfitt orð. Sem ung kona bar ég of mikla virðingu fyrir því til að nota það um skoðanir mínar. Nú þori ég, get og vil vegna þess að þá var þörf en nú er nauðsyn. Þrátt fyrir að barátta feminisma hafi borið mikinn árangur hefur hún líka gert kvenhatur allra alda sýnilegra. Hér áður fyrr sungum við saman og trúðum að jafnréttið væri handan hornsins, hvernig gat annað verið? Ungar konur í dag þurfa að taka erfiðari umræðu þegar þær afhjúpa kynferðisofbeldi sem hefur verið viðloðandi mannkyn frá örófi alda . Þær eru rétt að byrja að opna ormagryfjuna og þurfa stuðning okkar allan.
Í fréttaflutningi af meintu nauðgunarmáli í Hlíðunum birtist alltaf á vefmiðlum mynd af Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, verjanda í málinu, þar sem innrömmuð mynd af Steini Steinari gýtur lögmanninn hornauga. Hvað er skáldið að gera þarna, hugsaði ég þar til ég kom auga á hið augljósa. Steinn Steinarr blandar sér í umræðuna vegna að ,,það er nefnilega vitlaust gefið.”
Feminismi fjallar um að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Nú beinist athyglin aðallega að kynferðisofbeldi. Þung barátta er framundan. Væri þá ekki gott fyrir okkur að syngja meira? Ég er viss um að Valgeir Guðjónsson mætir með gítarinn og spilar undir þegar mannfjöldinn syngur lag hans Dómar heimsins dóttir góð.