Spennan magnast nú vegna mögulegrar lokunar álversins í Straumsvík, ef til verkfalls hjá starfsmönnum kemur, 2. desember. Svo virðist sem það sé raunhæfur möguleiki að álver Rio Tinto Alcan loki varanlega, ef til verkfalls kemur, en ekkert hefur miðað í samningaviðræðum undanfarna daga.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, gerir þessa deilu að umtalsefni á Facebook síðu sinni og kennir Landsvirkjun um deilurnar. Ástæðan sem Vilhjálmur tiltekur sérstaklega, er að Landsvirkjun vilji fá hærra verð en Rio Tinto getur fengið annars staðar, einkum í Kanada. Vilhjálmur segir að þarna muni um 30 prósentum.
„Landsvirkjun er að slátra mjólkurkúnni sinni með því að bjóða ekki samkeppnishæft verð“ segir Vilhjálmur og á þarna við raforkuverðið. Hann segir starfsmenn í Straumsvík vera fórnarlömb verðstefnu Landsvirkjunar.
Vilhjálmur tekur þarna harða afstöðu með Rio Tinto, einu stærsta fyrirtæki heimsins á sviði hrávöruframleiðslu, og heimtar að Landsvirkjun selji raforkuna á enn lægra verði en það gerir nú til Rio Tinto.
Þetta verða að teljast frekar óvænt sjónarmið hjá Vilhjálmi, í ljósi þess að til þessa hefur það verið kappsmál hjá Landsvirkjun, sem fyrirtækis í almannaeigu, að vilja fá sem hæst verð fyrir raforkuna sem seld er til erlendra stórfyrirtækja.
Formaður VM, félags vélstjóra- og málmtæknimanna, sagði heldur ekki alveg þessa sögu af kjaradeilunni, og gagnrýndi Rio Tinto harðlega fyrir framgöngu sína. Hann sagði fyrirtækið þekkt fyrir að vija „sjúga“ það sem það gæti út úr hagkerfum, og helst ekki greiða skatta eða annað sem teldist gæti samfélagslega ábyrgt.