Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og doktor í hagfræði frá Yale háskóla, segir frétt Hagstofu Íslands frá því á föstudag, þar sem Hagstofa Íslands fjallar um áður fram komnar tölur um búferlaflutninga, vera „stórfurðulega“. Í frétt Hagstofu Íslands var sagt að engar markverðar breytingar hafi átt sér stað á hlutfalli íslenskra ríkisborgara sem fluttu til og frá landinu á mismundandi aldursbili árið 2015.
Ástæða fréttar Hagstofunnar var frétt Morgunblaðsins frá 11. nóvember þar sem sagði að alls hafi 3.210 íslenskir ríkisborgarar flutt frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til landsins.
Á Facebook síðu sinni sagði Gylfi að tölurnar tali alveg sínu máli. „Frá 1961 hafa brottfluttir með íslenskt ríkisfang verið að meðaltali 0,18 prósent af fólksfjölda á hverju ári. Árið 2013 var hlutfallið komið niður í 0,01 prósent en hefur síðan farið ört hækkandi. Í fyrra var 0,23 prósent, þ.e. meira en í meðalári og miðað við fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs verður hlutfallið 0,46 prósent í ár - sem er tala sem áður hefur yfirleitt bara sést í efnahagskreppum. Brottflutningur íslenskra ríkisborgara í ár stefnir í að verða meiri en í krísunni 2008 til 2012.“
Svo mörg voru þau orð.
Það sem er athyglisvert við þessa frétt Hagstofu Íslands, er að hún lítur út fyrir að vera viðbragð við umræðu sem var óheppileg fyrir stjórnvöld. Það er mjög mikilvægt að Hagstofa Íslands miðli hagtölum af fagmennsku, og láti ekki stjórnmálamenn og spunameistara þeirra stjórna sér í framsetningu og túlkunum á gögnum. En getur það verið að Hagstofa Íslands hafi verið að bregðast við þessari frétt Morgunblaðsins, sem var hárrétt og ekkert við hana að athuga, vegna þess að pólitískur þrýstingur var fyrir hendi um að hún ætti að gera slíkt? Var einhver frá stjórnvöldum að krefjast þess að Hagstofa Íslands myndi bregðast við þessari umræðu? Fróðlegt væri að heyra Hagstofustjóra skýra þetta.